Home Fréttir Í fréttum Siglufjarðarvegur: „Ég myndi bara lýsa honum sem stórhættulegum“

Siglufjarðarvegur: „Ég myndi bara lýsa honum sem stórhættulegum“

48
0
Öfgar í veðurfari og úrkomuákefð hefur flýtt töluvert fyrir versnandi ástandi vegarins. RÚV – Sölvi Andrason

Bæjarstjóri Fjallabyggðar segir hluta Siglufjarðarvegs stórhættulegan vegna mikils jarðsigs. Hún segir að grípa verði til aðgerða áður en stórslys eigi sér stað.

<>

Ófremdarástand er á hluta Siglufjarðarvegar sem bæjarstjóri segir stórhættulegan. Nú er barist fyrir gerð jarðganga frá Siglufirði yfir í Fljótin til að tryggja öryggi vegfarenda.

„Við fáum ekki mannslíf til baka“
Frá 2021 hefur ríkt viðvarandi óvissustig á Siglufjarðarvegi vegna jarðsigs og hættu á grjóthruni. Þar að auki er hætta á aurskriðum og snjóflóðum stóran hluta árs. Bæjarstjóri Fjallabyggðar telur ekki eðlilegt að vegur í slíku ástandi sé svo fjölfarinn.

„Ég myndi bara lýsa honum sem stórhættulegum,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, þegar hún talar um ástand vegarins í dag.

„Þetta höfum við verið að benda á, og í rauninni er hægt að byggja upp vegi aftur ef þeir fara í sjó fram. En við fáum ekki mannslíf til baka,“ segir hún.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar vill að gerð verði göng milli Siglufjarðar og Fljóta, svo íbúar þurfi ekki að óttast það áfram að fara um þennan slæma vegakafla.

Þegar hefur verið gerð þingsályktunartillaga um málið sem Sigríður segist bjartsýn fyrir.

Vegurinn hefur farið fram um 75 sentímetra á árinu
„Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Vegagerðin eru með rauntímamælingar sem sýna algjörlega hvernig vegurinn er að hreyfast. Frá 2019 til 2020 fór hann fram um tvo metra og á síðustu fjórum mánuðum hefur hann farið fram um 75 sentímetra,“ segir Sigríður og bætir við að „í rauninni er Vegagerðin hætt að malbika þessa kafla, því það bara tekur því ekki.“

Hefur oft óttast um eigið öryggi
María Þórunn Númadóttir, bóndi í Fljótum, er ein þeirra sem þarf að reiða sig á veginn daglega og hefur gert síðustu tíu ár. Hún segist oft hafa óttast um eigið öryggi á þeim árum. Hún segir að gerð vegganga mynd hafa mikla þýðingu fyrir sig og þá sem þurfa að nota veginn mikið.

„Það náttúrlega myndi breyta alveg helling, þá myndu krakkarnir mínir fara hingað í fótbolta og alls konar íþróttaaðstöðu, sem þeir gera ekki núna til dæmis.“

Heimild: Ruv.is