Home Fréttir Í fréttum Ný viðmið í veislum og viðburðum

Ný viðmið í veislum og viðburðum

17
0
Tölvuteikning af nýju farþegamiðstöðinni. Í veislusalnum á annarri hæð má rúma allt að 2.000 manns í standandi veislu.

Vorið 2026 verður vígð ný og fjölnota farþegamiðstöð sem þjónusta mun þann mikla fjölda skemmtiferðaskipa sem hingað kemur ár hvert.

Þessi nýja glæsilega bygging fær svo annað hlutverk yfir vetrartímann, nánar tiltekið frá október og út mars ár hvert, og verður þá vettvangur viðburða og veislna af öllum stærðum og gerðum. Það er Múlakaffi sem var valið úr hópi umsækjenda og verður rekstraraðili nýja veislusalarins næstu árin.

Frá undirritun samstarfssamnings Faxaflóahafna og Múlakaffis. Inga Rut Hjaltadóttir, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Faxaflóahafna, Gunnar Tryggvason hafnarstjóri, Jóhannes Stefánsson, eigandi Múlakaffis, og Guðríður María Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Múlakaffis. Ljósmynd/Aðsend

„Við sjáum gríðarleg tækifæri í nýja veislusalnum við Sundahöfn. Veisluþjónusta í sinni breiðustu mynd er kjarnastarfsemi okkar í Múlakaffi og á þeim markaði er mikil eftirspurn eftir nýjum valkostum.

Um er að ræða stórglæsilega veislusali á magnaðri staðsetningu við sjávarsíðuna og hlökkum við til þess að bjóða okkar stóra hópi viðskiptavina upp á nýjan áfangastað fyrir veislur og viðburði af öllum stærðum og gerðum,“ segir Guðríður María Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Múlakaffis.

Útsýnið úr byggingunni er eins og best verður á kosið.

Byggingin sjálf er öll hin glæsilegasta, heilir 5.500 fermetrar, og er veislusalurinn á annarri hæð með óviðjafnanlegu útsýni yfir Viðeyjarsund. Salurinn er stór með myndarlegri lofthæð og tekur 900 manns í sitjandi borðhaldi og hátt í 2.000 manns í standandi veislur. Aðkoman að byggingunni er með besta móti og gnægð er af bílastæðum. Í veislusalnum er hágæðatæknibúnaður, fullvaxið svið fyrir viðburði, fullkomið hljóð- og myndkerfi og ljósabúnaður af bestu gerð.

„Veislusalurinn nýi er einn með öllu og hentar fullkomlega fyrir árshátíðir, starfsdaga, ráðstefnur, vörukynningar, sýningar og viðburði af ýmsu tagi,“ bætir Guðríður við.

Leitað er að nafni á bygginguna. Frestur til að skila inn tillögum rennur út 1. febrúar.

Bókanir hafnar fyrir haustið

Veislusalurinn verður opnaður í haust og verður opinn frá október til mars ár hvert. Landsliðskokkar Múlakaffis ásamt þrautreyndu teymi þjóna og veislustarfsfólks munu þar töfra fram veislur af öllum stærðum og gerðum, með áherslu á gæði og framúrskarandi þjónustu fyrir viðskiptavini.

„Það er gaman að segja frá því að við fórum að fá fyrirspurnir um leið og húsið var kynnt almenningi síðastliðið vor og nú þegar höfum við bókað nokkrar stórar árshátíðir hjá íslenskum fyrirtækjum auk stærri og minni ráðstefna. Við hvetjum því áhugasama til að hafa samband sem fyrst með því að senda okkur fyrirspurn á netfangið mulakaffi@mulakaffi.is,“ segir Guðríður.

Alls kyns möguleikar eru fyrir viðburðahald í húsinu enda verður þar fullkomið hljóð- og myndkerfi og ljósabúnaður.

Nafnasamkeppni stendur yfir

Gaman er að segja frá því að húsið sjálft hefur enn ekki fengið nafn. Faxaflóahafnir ákváðu að efna til nafnasamkeppni og leita til almennings eftir hugmyndum. Glæsilegur vinningur er í boði fyrir sigurvegara samkeppninnar og fresturinn til að skila inn nafnatillögu er til miðnættis sunnudaginn 1. febrúar. Hægt er að senda inn tillögur á vefnum nafnasamkeppni.is.

Strax og húsið var tilkynnt síðastliðið vor hófu fóru fyrirspurnir að berast og eru nokkrar stórar árshátíðir þegar bókaðar.

Heimild: Mbl.is