Efla verkfræðistofa hefur fundið myglu í húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri. Alútboð fór fram í gær, sama dag og myglan var staðfest, fyrir verktaka vegna byggingar 1.300 milljóna króna heilsugæslustöðvar á tjaldstæðisreitnum við Þórunnarstræti.
Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir um að ræða myglu á 6. hæðinni í Amaro og ef til vill víðar í húsinu.
„Já, ég held að það megi segja að mjög sterkur grunur sé um myglu þarna,“ segir hann.
Efla verkfræðistofa rannsakaði ástand Amaro-hússins eftir kvartanir starfsfólks um ólykt og léleg vistgæði. Jón Helgi segir niðurstöðuna ekki koma á óvart.
„Þetta er eldgamalt hús og í raun búið að vera óhæft undir starfsemi heilsugæslunnar í 15 ár.“
Jón Helgi segir löngu tímabært að reist verði ný heilsugæslustöð á Akureyri, kynning á alútboði fór fram fyrir verktaka í gær. Heilsugæslu á Akureyri verður tvískipt í framtíðinni, hluti starfseminnar fer fram í Sunnuhlíð en hinn á Brekkunni.
„Það verður mikil bót þegar nýja stöðin kemst í gagnið,“ segir Jón Helgi.
„Ég held að Akureyri sé eina stóra samfélagið hér á landi þar sem aldrei hefur sérstaklega verið byggð heilsugæslustöð utan um svona starfsemi. Það var löngu tímabært,“ segir Jón Helgi og fagnar umbótunum á sama tíma og myglan veldur tjóni.
Heimild: Frettabladid.is