Gunnar Sverrir Harðarson fasteignasali og einn af eigendum REMAX fasteignasölu segir að markaðurinn sé að ná jafnvægi eftir mjög hressilegt tímabil. Hann segir að það vanti mikið af eignum á sölu og það verði íbúðaskortur á næstu árum.
„Það hefur verið meira líf á markaðnum núna eftir áramót en fyrir áramót. Auðvitað höfum við sveiflast aðeins frá seljandamarkaði yfir í kaupendamarkað sem okkur finnst gott. Fólk hefur meiri tíma til að skoða eignirnar og þar með meiri tíma til að taka ákvörðun.
Auðvitað heldur fólk frekar að sér höndum í núverandi ástandi og allir utanaðkomandi þættir eins og verkföll og vaxtahækkanir hafa áhrif á ákvarðanir kaupenda alveg eins og seljenda. Það sem okkur finnst vanta fyrst og fremst á markaðinn núna eru betri aðstæður fyrir fyrstu kaupendur til að koma inn,“ segir Gunnar Sverrir.
Eftir hverju er fólk að leita?
„Það getur verið mjög mismunandi eftir hverju fólk er að leita þegar kemur að fasteignum. Það er í raun misjafnt eftir markhópum. Fyrstu kaupendur eru að leita leiða til að koma sér á markaðinn og skiptir þá oft ekki endilega máli í hvaða hverfi það er, á meðan þeir sem eru að stækka við sig leita fyrst og fremst innan þess hverfis þar sem þeir eru nú þegar.“
Gunnar Sverrir segir að það hafi hægst á markaðnum ef miðað er við síðustu tvö ár og hann sé að leita að meira jafnvægi.
„Að mörgu leyti er markaðurinn eðlilegri núna en þegar fólk gat aðeins skoðað eignina í stutta stund áður en það þurfti að taka ákvörðun. Fólk hefur lengri tíma bæði til að skoða hverja eign fyrir sig og gera samanburð við aðrar eignir. Ég myndi telja það eðlilegri markað en við höfum kynnst undanfarin misseri.
Vaxtahækkanir hafa dregið úr eftirspurn þar sem geta fólks til að fjármagna fasteignakaup hefur þrengst en það má ekki gleyma því að þörfin er ennþá fyrir hendi og verður alltaf fyrir hendi. Þeir kaupendur sem draga sig í hlé vegna aðstæðna núna gætu því verið að bætast við kaupendahóp næstu ára þegar aðstæður verða betri varðandi fjármögnun,“ segir hann.
Þegar hann er spurður út í hvaða eignir séu eftirsóttastar nefnir hann vel staðsettar íbúðir í nýju húsnæði.
„Sala á nýjum íbúðum hefur gengið vel og er þar hægt að taka Hallgerðargötuna sem dæmi. Húsið hefur verið í sölu í tæpa þrjá mánuði og þar eru aðeins níu íbúðir eftir af 82. Vönduð og vel staðsett fasteign er alltaf vinsæl og við höfum séð það glöggt í gegnum tíðina.“
Hvernig sérðu fyrir þér að fasteignamarkaðurinn þróist?
„Ég sé markaðinn í jafnvægi næstu mánuðina en það sem ég hræðist mest er að framleiðslugeta hans sé ekki næg til að mæta þeirri þörf sem verður til staðar næstu árin. Það verður töluverð innviðauppbygging næstu árin og einnig horfum við fram á það að ferðamönnum mun fjölga á sama tíma.
Gistirýmum hefur fækkað með brotthvarfi íbúða úr skammtímaleigu í gegnum kórónuveirutímann. Því munu fleiri íbúðir fara undir þá starfsemi samhliða fjölgun ferðamanna og þeirra sem þurfa að þjónusta ferðamannageirann. Þessi innviðauppbygging er jafnframt mannaflsfrek og ef hún á að verða að veruleika þarf að hýsa mikinn fjölda starfsmanna sem munu koma til landsins,“ segir Gunnar Sverrir og bendir á að það vanti almennt meira úrval af öllum tegundum eigna á sölu þar sem þær séu í sögulegu lágmarki þessa dagana.
Ef þú værir að ráðleggja fólki í fasteignahugleiðingum þessa dagana, myndirðu segja því að selja fyrst sína íbúð og finna svo aðra til að kaupa eða finna fyrst íbúð og setja svo sína á sölu?
„Það fer eftir aðstæðum hjá hverjum og einum hvort það hentar að selja eignina sína áður en næsta er keypt. Það getur hentað sumum en ekki öllum. Almennt borgar sig fyrst og fremst að vera vel undirbúinn og vera búinn að klára almenna grunnvinnu varðandi sína fasteign. Undirbúa fyrir myndatöku og láta kalla eftir gögnum. Einnig er mjög mikilvægt að vera búinn að kanna stöðuna með sinni lánastofnun svo maður sjái hvar maður stendur gagnvart mögulegum kaupum,“ segir hann.
Heimild: Mbl.is