Svanur Sigurbjörnsson lyflæknir segir að nýr spítali muni ekki leysa skort á nýjum sjúkrarúmum.
Þegar nýr meðferðarkjarni Landspítala verður tekinn í notkun mun áfram vanta rými fyrir sjúklinga. Þetta segir Svanur Sigurbjörnsson lyflæknir. Nú þegar sé fjöldi sjúkrarúma á mann töluvert minni en í nágrannaríkjunum og nýi spítalinn muni ekki duga til.
„Það er talið æskilegast að legurými sjúkrahúsa séu að meðaltali fyllt að 80-85% en við erum með 100% nýtingu allan tímann. Svo bara fjöldi rýmanna. Þar stöndum við aftar en nágrannaríkin. Þar skortir um þriðjung rýma.
Tölurnar eru 3,94 í Evrópuríkjum en við erum í 2,85 rúm per þúsund manns. Þannig að við stöndum þarna halloka,“ segir Svanur Sigurbjörnsson lyflæknir í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1.
Hann segir að við þessar aðstæður verði keðjuverkun.
„Rýmin skapa biðlista, biðlistar skapa meiri veikindi. Það eru þrengsli á sjúkrahúsunum þar sem fólk liggur á göngum bráðamóttökunnar og kemst ekki inn á deildir. Þetta er bara algjörlega óbjóðandi fólki. Þetta er fráhrindandi vinnuumhverfi. Læknar vilja síður koma heim og læknar og hjúkrunarfræðingar fara í aðrar starfsgreinar,“ segir Svanur.
Spár gerðu ráð fyrir að nýr meðferðarkjarni Landspítala ætti að vera risinn og tekinn í notkun 2026. Svanur segir að hann muni ekki duga til.