Fimm milljarða framkvæmdir eru fyrirhugaðar við höfnina í Þorlákshöfn til ársins 2026. Mest allt grjótið kemur úr námu sem varð til við landmótun lóðar fiskeldisstöðvar.
Umfangsmiklar framkvæmdir standa nú yfir í höfninni í Þorlákshöfn. Meðal helstu verkþátta eru lenging Suðurvarargarðs um 250 metra, endurbygging Suðurvararbryggju og endurbygging Svartaskersbryggju.
Í drögum að fjárhags- og framkvæmdaáætlun, sem tekin var fyrir í framkvæmda- og hafnarnefnd, er gert ráð fyrir að heildarkostnaður til ársins 2026 verði 5,6 milljarðar króna. Þar af 1,8 milljarðar á næsta ári.
„Umsvif Smyril Line í Þorlákshöfn eru mikil og hafa aukist mikið á síðustu árum. Þessar hafnarbætur eru til þess gerðar að bæta aðstöðuna fyrir fyrirtækið.
Auk þess er verið að vinna að framkvæmdum við landeldisverkefni, sem munu geta framleitt allt að 130 þúsund tonn af laxi auk fleiri stórra verkefna í sveitarfélaginu. Við erum því að vinna að uppbyggingu nauðsynlegra innviða eins og stækkunar hafnarinnar,“ segir Eiríkur Vignir Pálsson, formaður framkvæmda- og hafnarnefndar Ölfuss.
Þær framkvæmdir sem eru þegar farnar af stað eru lenging Suðurvarargarðs og endurbygging Svartaskersbryggju. Gífurlega mikið efni þarf til að lengja Suðurvarargarð og er heildarstærð framkvæmdasvæðisins um 4,5 hektarar.
Grjótmagnið sem fer í lengingu brimvarnargarðsins er áætlað um 300.000 rúmmetrar. Allt grjót nema það stærsta kemur úr námu sem varð til við landmótun lóðar fiskeldisstöðvarinnar Landeldis ehf. í Þorlákshöfn.
„Landeldi ehf. þarf að móta lóðina hjá sér til að setja upp fjöldann allan af kerjum fyrir laxeldi,“ segir Eiríkur og bendir á að til þess hafi fyrirtækið þurft að taka burt 300 þúsund rúmmetra af efni.
„Þar sem þetta átti að gerast á sama tíma og framkvæmdirnar við höfnina var farið í að rannsaka bergið í lóð Landeldis og kom í ljós að það hentaði ágætlega.“
Ölfus samdi því við forsvarsmenn Landeldis um að framkvæmdaaðilar hafnarinnar sæju um að sprengja og moka burt efninu en Landeldi myndi borga vissa upphæð á hvern fermetra.
„Verktakinn fær í staðinn að hirða grjótið. Með þessu verður framkvæmdin hagstæðari fyrir Landeldi og við fáum grjót á góðum kjörum,“ segir Eiríkur.
Hann segir að þessar framkvæmdir séu til þess gerðar að gera Þorlákshöfn mögulegt að taka á móti 180-200 metra löngum skipum.
Þá bendir hann á að framkvæmdirnar muni bæta öryggi notenda hafnarinnar því þær séu til þess gerðar að gera öldulag betra og auðveldara fyrir stór skip að athafna sig innan hafnarinnar.
„Áætlanir gera ráð fyrir að þegar vinnu við þessar framkvæmdir er lokið þá verði höfnin þegar orðin of lítil til að mæta þörfum atvinnulífsins. Þess vegna erum við byrjuð að undirbúa næstu skref sem liggja í frekari stækkun hafnarinnar til norðurs,“ segir Eiríkur.
Heimild: Frettabladid.is