Kaupin eru gerð með fyrirvara um fjármögnun en að sögn Áslaugar Guðrúnardóttur, framkvæmdastjóra samskipta hjá Þorpinu er engin ástæða til að áætla að þau fari ekki í gegn. Hún segir að kaupin hafi ekki staðið lengi til en hlutirnir hafi gerst hratt í síðustu viku.
Hugmynd Þorpsins er að breyta húsinu í íbúðarhúsnæði. Myndlistarskóli Reykjavíkur hefur aðsetur í húsinu en áður var hótelið ODDSSON einnig rekið þar. Það lokaði árið 2018.
„Húsið er byggt á súlum og það er auðvelt að gera þarna íbúðir sem ná enda á milli í húsinu frá suðri og út að sjó. Þannig þetta er eitthvað um fjörutíu íbúðir sem væri hægt að setja þarna.“
Þriggja ára ferli að framkvæmdatíma meðtöldum
Í tillögunum er gert ráð fyrir íbúðum á bilinu fimmtíu til hundrað fermetrar. Þá er fyrirhugað að hafa atvinnustarfsemi á neðstu hæð hússins.
„Samkvæmt fyrstu hugmyndum þar sem núna er bílastæði þarna á bakvið húsið breyta því bara í grænt svæði þá gætu allar íbúðirnar verið með svalir sem snúa í suður. Eða lítinn garðskála. Svo eru hugmyndir um að setja svalir að framan líka sem snúa út á sjó.“
Myndlistarskólinn í Reykjavík hefur hug á að fara annað en líklega verða íbúðirnar ekki tilbúnar fyrr en eftir þrjú ár að framkvæmdatíma meðtöldum.
„Það er reiknað með svona tveggja ára tímabili í að klára þetta allt saman. Skólinn gæti verið þarna næstu tvö árin þar til hann getur flutt eitthvað annað,“ segir Áslaug.
Heimild: Ruv.is