Verktakafélagið K16 hefur stefnt íslenska ríkinu til viðurkenningar bótaréttar vegna þeirrar ákvörðunar ríkisins að hafna tilboði stefnanda í leiguhúsnæði fyrir Vegagerðina sem hafi verið 800 milljónum lægra en tilboðið sem var tekið.
Aðalmeðferð í málinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 13.15 í dag.
Í stefnunni sem mbl.is hefur undir höndum kemur fram að í júní 2018 hafi ríkiskaup auglýst fyrir hönd ríkissjóðs eftir því að taka á langtímaleigu til 20 ára húsnæði á höfuðborgarsvæðinu fyrir skrifstofur og geymslur ásamt útisvæði fyrir Vegagerðina en umsjónaraðili var Framkvæmdasýsla ríkisins.
Þá kemur fram að K16 hafi lagt inn lægsta tilboðið, Íshellu 1 í Hafnarfirði, og var leiguverð á fermetra 2.262 krónur og heildaraleiga á mánuði því 13.501.878 krónur.
Aftur á móti var ákveðið að taka tilboði Regins hf. fyrir hönd RA 10 ehf fyrir húsnæði að Suðurhrauni 3, Garðabæ þar sem leiga var 2.650 kr. á mánuði á hvern fermetra og heildarleiga á mánuði því 15.800.000 kr. Hún hafi síðan verið hækkuð í 2.710 fyrir hvern fermetra eða eða 16.174.990 kr á mánuði.
Munur á þessum tveimur tilboðum á leigutímanum er samkvæmt þessu 641.141.760 krónur. Enn fremur hafi verið hægt að framlengja samninginn um 5 ár og er munurinn á leigu því 778.669.080 krónur.
Húsnæði Regins hafi ekki uppfyllt kröfur
Í tölvupósti frá Ríkiskaupum kom fram að tilboði K16 hafi m.a. verið vísað frá á grundvelli staðsetningar hússins og útisvæðis á lóð. Lóðin uppfyllti m.a. ekki stærðarkröfur, húsið of stórt og nálægð við stofnbrautir, almenningssamgöngur og þjónustu væri erfið norðan Íshellu á álagstímum.
K16 heldur því hins vegar fram að húsnæðið og staðsetning þess hafi uppfyllt öll skilyrði sem fram komu í húslýsingu og húsrýmisáætlun í auglýsingu Ríkiskaupa. Hægt var að aðlaga húsnæði og lóð að öllum kröfum leigutaka og að ítrekað hafi verið bent á þetta í tölvupóstum til Ríkiskaupa, Framkvæmdasýslu ríkisins og Vegagerðar.
Segir að íslenska ríkið hafi kosið að hunsa þetta og ganga til samninga við Reginn. Ljóst sé þó að framboðið húsnæði Regins hafi ekki uppfyllt kröfur sem gerðar voru þegar tilboð var sett fram. Það hafi verið ráðist í mikla byggingu við húsnæðið að Suðurhrauni 3 en þetta hafi K16 verið tilbúið að gera en fyrir miklu lægra verð en því tilboði sem tekið var.
Eitthvað að fela
Kemur fram að K16 hafi ekki verið boðið til viðræðna um húsnæðið eins og Reginn hf. og ljóst sé að eftirfarandi samningaviðræður hafa farið fram eftir lok útboðsins þar sem samið er um veruleg frávik. Jafnræði aðila er þannig fyrir borð borið enda gafst stefnanda ekki færi á að koma að lagfæringum á tilboðinu í samræmi við það.
Þá kemur fram að Reginn og Ríkiskaup hafa alls ekki viljað að K16 fengi göng er vörðuðu málið og lagst gegn því að stefnandi fengi aðgang að þeim. Það sé því ljóst að eitthvað er að fela.
K16 byggir á því að háttsemi íslenska ríkisins hafi verði ólögmæt og brotið í bága við þær reglur sem gilda við útboð af þessu tagi og með því bakað sér skaðabótaskyldu. Auk þess hafi ekki verði gætt jafnræðis né var gagnsæi í útboðsferlinu né heldur voru meginsjónarmið um samskiptareglur virtar.
Heimild: Mbl.is