Rekstrartekjur Regins fasteignafélags námu tæpum þremur milljörðum fyrsta ársfjórðunginn og nam hagnaðurinn eftir tekjuskatt rúmum 1,5 milljörðum króna, sem er rúmum hundrað milljónum meira en fyrir sama tímabil í fyrra.
Vaxtaberandi skuldir hækka úr 96,068 milljörðum undir lok 2021, í 97,246 milljarða króna eftir fyrstu þrjá mánuði ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu Regins hf.
Þar segir jafnframt að fjárhagsstaða félagsins sé sterk og fjárhagsleg skilyrði vel innan marka lánaskilmála. Handbært fé var 2,853 milljarðar í lok tímabilsins og auk þess hafði félagið aðgang að ónýttum lánalínum að fjárhæð 4,700 milljörðum króna.
Leigutekjur hækka um 9%
Rekstartekjurnar námu 2,802 milljörðum króna, þar af voru 2,636 milljarður vegna leigutekna en þær hafa hækkað um 9% frá sama tímabili í fyrra. Þá var rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir / EBITDA, rúmar 1,8 milljarður króna sem er um 11% hærra en á sama tímabili í fyrra.
„Rekstur félagsins og afkoma er góð og í samræmi við áætlanir. Mikill kraftur virðist vera í atvinnulífinu, kemur það m.a. fram í mikilli eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Svo virðist sem COVID áhrifa í rekstri gæti ekki lengur,“ segir í tilkynningu Regins.
98% útleiguhlutfall
Reginn er hlutafélag sem er skráð í Kauphöll Íslands en fjöldi hluthafa undir lok mars var 498. Eignasafn félagsins samanstendur af atvinnuhúsnæði og var fjöldi fasteigna í lok tímabilsins 108 og heildarfermetrafjöldi eignanna um 376 þúsund.
Útleiguhlutfallið er yfir 98% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi og hefur hún aldrei verið hærri. Á tímabilinu hafa verið gerðir leigusamningar vegna 8.900 fermetra sem er um fjórðungs aukning frá sama tímabili fyrir ári.
Þá voru eignir að andvirði 1,75 milljarða króna einnig seldar á tímabilinu.
„Það er mat stjórnenda að enn sé einhver óvissa í þróun efnahagsmála sem getur haft áhrif á getu einstaka leigutaka til að standa við skuldbindingar sínar. Þeir leigutakar sem þessi óvissa tekur til eru þó fáir og umfang tekna frá þeim lítið hlutfall af leigutekjum félagsins.
Þessi óvissa mun ekki hafa áhrif á rekstrarhæfi félagsins á árinu 2022. Heildar matsbreyting á fyrstu 3 mánuðum ársins nam 2.427 m.kr.,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Heimild: Mbl.is