Ný styttist óðum í að nýtt hjúkrunarheimili verði opnað á Selfossi fyrir sextíu íbúa. Fjörutíu manns af höfuðborgarsvæðinu munu fá inni á nýja heimilinu.
Nýja hjúkrunarheimilið er steinsnar frá sjúkrahúsinu á Selfossi en það verður Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem mun reka heimilið líkt og sjúkrahúsið.
Nýja hjúkrunarheimilið er byggt í hring og þar verður pláss fyrir 60 manns. Búið er að auglýsa eftir starfsfólki en ráða þarf í fjörutíu og fjögur hundrað prósent stöðugildi.
Hjúkrunarforstjóri verður Ólöf Árnadóttir, sem er einnig hjúkrunarstjóri yfir Ljósheimum og Fossheimum, sem eru hjúkrunardeildir á sjúkrahúsinu. Á heimilinu verða fimm búsetueiningar fyrir 12 íbúa hver.
„Þetta er spennandi viðbót við hjúkrunarheimilin hér á Suðurlandi og þetta glæsilega hús mun henta mjög vel í þessa starfsemi, sem við erum að fara af stað með hérna. Þetta mun breyta því að við erum náttúrlega með biðlista inn í hjúkrunarrými og þetta mun létta á því.
Mér sýnist miðað við stöðuna í dag þá förum við langt með að hreinsa upp biðlistana hjá okkur,“ segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Díana segir að það sé búið að gera samning við Sveitarfélagið Árborg um að taka við fólki af höfuðborgarsvæðinu inn á nýja hjúkrunarheimilið.
„Já, þannig að við munum taka við 35 til 40 íbúum frá höfuðborgarsvæðinu,“ segir Díana.
En hvað segir fólki við því að það eigi að taka svona mörg pláss frá fyrir höfuðborgarsvæðið?
„Fólk óar við því. Þessi rými, sem eru tímabundin hefðu bara farið inn í þetta heimili en þau verða áfram í rekstri, þannig að þetta mun ekki hafa áhrif á þau pláss, sem eru raunverulega að verða til hjá okkur,“ bætir Díana við.
Iðnaðarmenn eru nú á fullum krafti að leggja lokahönd á alla vinnuna inni áður en heimilið verður opnað í mars næstkomandi. Covid hefur þú aðeins tafið vinnuna því eitthvað af iðnaðarmönnum hafa þurft að fara í einangrun eða sóttkví.
Heimild: Visir.is