Home Fréttir Í fréttum Byggingu skrifstofuhúss Alþingis miðar vel áfram

Byggingu skrifstofuhúss Alþingis miðar vel áfram

125
0
Mynd: Alþingi
Ný skrifstofubygging Alþingis er farin að taka á sig mynd við Tjarnargötu 9. Byggingin er tekin að rísa uppfyrir girðinguna sem umlykur framkvæmdasvæðið og því geta vegfarendur áttað sig á hvernig húsið lítur út.

Húsið verður alls fimm hæðir og nú er uppsteypu á veggjum annarar hæðar þess lokið að mestu og búið að steypa tvo af fjórum áföngum við gólfplötu þriðju hæðarinnar.

<>

Uppsláttur er einnig hafinn fyrir veggi þriðju hæðarinnar auk þess sem vinna innandyra stendur yfir. Þar er meðal annars unnið við pípulagnir, aðalrafmagnstöflu hússins og málningarvinna er hafin í kjallaranum.

Fyrsta sendingin af gluggum í húsið er væntanleg í næsta mánuði og eins undirkerfi fyrir klæðningu þess utanhúss. Í húsinu verða 142 gluggar og 187 innihurðir en það tengist öðrum byggingum Alþingis.

Faraldurinn hefur lítið tafið verkið

Húsið verður klætt Reykjavíkurgrágrýti, Grindavíkurgrágrýti, gabbró, líparíti, blágrýti og hraungrýti. Byggingin gengur samkvæmt áætlun, faraldurinn hefur lítið tafið verkið en þó hefur þeim starfsmönnum sem þurft hafa í sóttkví fjölgað undanfarnar vikur.

Einnig hefur afhending ýmissa aðfanga erlendis frá tafist eitthvað. Enn er reiknað er með að uppsteypu skrifstofuhúss Alþingis ljúki í sumar og að það verði tilbúið vorið 2023.

Efnt var til samkeppni um hönnun hússins og það voru Arkitektar Studio Granda sem áttu verðlaunatillöguna sem kynnt var 17. desember 2016.

Húsið verður ríflega 6.000 fermetrar að stærð ásamt bílakjallara og hýsir skrifstofur þingmanna, fundarherbergi nefnda, aðstöðu þingflokka og ráðstefnusali. Samkvæmt áætlun fer viðlíka magn af steypu í húsið og þarf til að byggja 40 einbýlishús.

Heimild: Ruv.is