Ekki er að finn einn staf um nýjan þjóðarleikvang í knattspyrnu í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár.
Árið 2022 á hins vegar að hefja undirbúning að nýju íþróttahúsi í Laugardalnum.
Afreksfólk á Íslandi býr við erfiðar aðstæður, Laugardalshöllin mætir ekki nútíma kröfum og sama má segja um Laugardalsvöll. Lengi hefur verið unnið að nýjum þjóðarleikvangi sem er í eigu Reykjavíkurborgar.
Ekkert virðist þokast áfram í þeim málum sem gerir íslenskum landsliðum erfitt fyrr. Þannig þarf karlalandsliðið að keppa alla heimaleiki sína í undankeppni yfir stuttan tíma. Ekki er hægt að spila hér á landi í mars eða nóvember.
Reykjavíkurborg ætlar hins vegar að láta til skara skríða í framkvæmdum. „Stefnt er á að ljúka verkframkvæmdum við íþróttamiðstöð í Úlfarsárdal.
Þegar er sambyggður grunn- og leikskóli ásamt menningarhúsi tilbúið. Rennibraut verður sett upp við nýja sundlaug í Úlfarsárdal.
Framhald verður á verkframkvæmdum við íþróttamannvirki á ÍR svæðinu. Áfram verður fjárfest í endurnýjun á búnaði og uppbyggingu skíðasvæða í Bláfjöllum og Skálafelli til samræmis við samkomulag um endurnýjun og uppbyggingu á mannvirkjum skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins,” segir í drögum að fjárhagsáætlun.
Nokkrar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á næsta ári. „Framkvæmdir munu hefjast við nýtt vísinda- og upplifunarsafn í Laugardal. Undirbúningur mun hefjast við gerð dans- og fimleikahúss í Breiðholti sem og íþróttahúss í Laugardal.
Þá hefst einnig undirbúningur að gerð vetrargarðs í Breiðholti, fjölnota knatthúsi KR og haldið verður áfram með samvinnu við Kópavogsbæ að nýrri sundlaug í Fossvogi.
Þá verður áfram fé varið til annarra verkefna vegna stofnana sviðsins s.s. bættar skíðalyftur í hverfum, endurnýjun áhalda og tækja í sundlaugum og íþróttahúsum, gervigrasvellir endurnýjaðir og aðstaða á Tjaldsvæðinu í Laugardal áfram bætt.“
Rætt var um málið á fundi borgarstjórnar í dag.
Heimild: Frettabladid.is