Home Fréttir Í fréttum Segja dýrkeypt mistök í uppsiglingu

Segja dýrkeypt mistök í uppsiglingu

95
0
Björn Rúnar Lúðvíksson er meðal fjögurra yfirlækna sem hafa áhyggjur af nýjum Landspítala. VÍSIR/VILHELM

Fjórir yfirlæknar á Landspítalanum gera alvarlegar athugasemdir við hönnun nýs rannsóknarhúss við Landspítalann.

<>

Þeir benda á að verði ekki bætt úr gæti það orðið verulega dýrkeypt. Þeir hafi reynt að koma athugasemdunum á framfæri við stjórnendur spítalans en verið hunsaðir.

Yfirlæknarnir fjórir, þeir Björn Rúnar Lúðvíksson, Ísleifur Ólafsson, Jón Jóhannes Jónsson og Páll Torfi Önundarson, skrifa grein í Morgunblaðið í dag undir yfirskriftinni Gallar í hönnun nýs rannsóknarhúss Landspítala.

Björn Rúnar er yfirlæknir ónæmisfræði á Landspítala og segir athugasemdirnar einkum snúa að áformum um byggingu þyrlupalls á rannsóknarhúsinu og opnum rýmum.

„Það hentar alls ekki að hafa stóran þyrlupall á þaki rannsóknarhúss eins og þessu. Sérstaklega hvað varðar tækjabúnað og titring.

Þá er líka mengun af þyrlum, þær þyrla upp ryki. Við erum þarna að vinna með tæki sem eru mjög viðkvæm fyrir allri mengun og titringi.

Loks er reynsla norskra sjúkrahúsa af þyrlupöllum slæm og hafa orðið alvarleg slys inni á lóðum sjúkrahúsa vegna stormsveipa frá stórum þyrlum,“ segir Björn.

Frá byggingu nýja kjarnans við Hringbraut.
VÍSIR/VILHELM

Björn segir að hin gagnrýnin snúi að opnum vinnurýmum í húsinu sem henti alls ekki þeirri starfsemi sem eigi að vera í húsnæðinu.

„Það er mikill urgur í öllum sérfræðingum ekki bara læknum vegna fyrirtætlana um opin vinnurými. Við erum að vinna með alveg gríðarlega viðkvæm málefni og upplýsingar.

Við eigum oft á tíðum mjög erfið samtöl við skjólstæðinga okkar og finnst alveg útilokað að þau eigi sér stað í opnum rýmum. Eða þurfa að hlaupa um allt að leita að rýmum svo slík samtöl geti átt sér stað.

Þetta eru oft ófyrirséð samtöl og mikilvægt að geta verið í næði þegar þau koma upp. Þetta snertir líka persónuvernd og vellíðan starfsfólks á vinnustað.

Háskólasjúkrahús erlendis hafa oftar en ekki hætt við slík opin vinnurými eftir harða gagnrýni,“ segir Björn.

Athugasemdirnar hunsaðar
Björn segir að þessum athugasemdum hafi verið komið á framfæri.

„Við höfum sent greinargerðir á þá sem sjá um lokaskipulag byggingarinnar, þ.e. til hönnuða og framkvæmdastjórnar spítalans og allra þeirra sem við teljum að málið varði,“ segir Björn.

Hann segir að viðbrögðin hafi verið á einn veg.

„Ábendingar okkar hafa verið hunsaðar,“ segir Björn.

Heimild: Visir.is