Það er ekki skrýtið að byggingarkostnaður á Íslandi sé hár enda skipulagsferlið flókið og afskipti opinberra aðila afar seinvirk.
Þetta segir Björgvin Víglundsson verkfræðingur, sem starfaði um nokkra ára skeið í Noregi sem byggingafulltrúi.
Björgvin skrifar athyglisverða grein sem birtist í Morgunblaðinu um helgina þar sem hann segir að umræða um byggingarreglugerð hér á landi sé í hálfgerðu skötulíki.
„Stjórnvöld eru stöðugt að þyngja lög og reglugerðir í samráði við hagsmunaaðila sem veldur stöðugt auknum byggingarkostnaði ásamt því að vera allt of ströng, langt umfram meðalhóf þótt sé miðað við íslenskar aðstæður.“
Björgvin þekkir til þessara mála í Noregi en þar starfaði hann um nokkurra ára skeið sem byggingafulltrúi hjá sveitarfélagi.
„Umhverfi byggingariðnaðarins í Noregi og Norðurlöndum er mér nokkuð kunnugt.
Nefni ég hér smá dæmi. Að byggja eigið hús í Noregi er töluvert einfaldara en hérlendis, menn undirrita ábyrgðaryfirlýsingu fá sér rafvirkja og pípulagningamann sem eru viðurkenndir.
Teikningar eru einfaldar og skilað að öllu jöfnu á einu á litlu A4-blaði.
Ekki er um flókin skipulagsferli að ræða eða seinvirk afskipti opinberra aðila.
Menn geta breytt, byggt við, sett lítið aukahús á lóð og skipt eignum sínum með einföldum tilkynningum,“ segir hann meðal annars.
Hann segir að byggingarreglugerðin sé mun einfaldari í Svíþjóð og Danmörku en í Noregi.
Hann víkur sér svo að stöðu mála á Íslandi og bendir á að byggingaraðilar þurfi að ráða marga aðila að byggingunni.
„A.m.k. fjóra meistara, hönnunarstjóra, hönnuði, byggingarstjóra, auk gríðarlegs magns af teikningum og skráningartöflum.
Tafir á byrjunarreit og í ferlinu geta orðið umtalsverðar.
Jafnvel vegna rangra eða smásmugulegra athugasemda við hönnun eða oft vegna sérskoðana byggingafulltrúa.
Afgreiðsla smávægilegar breytingar tefjast oft í vikur eða mánuði, dæmi er um ár.“
Hann segir að það hafi sýnt sig að þetta flókna umhverfi auki ekki gæði framkvæmda. Gæði nýrra bygginga hér á landi séu langt fyrir neðan meðallag vestrænna þjóða.
„Nefna má nýleg dæmi um byggingar sem voru hannaðar og byggðar að viðurkenndum aðilum með fullkominn gæðakerfi. Þessar byggingar eru nánast ónýtar.
OECD hefur metið kostnað vegna of flókins umhverfis og hann er umtalsverður.
Með hæfilegri einföldun eru þetta 500 til 1000 íbúðir á ári hverju. Spurt er að lokum hvaða flokkar eru líklegir til að breyta þessu?“
Heimild: Hringbraut.is