Uppsett verð þeirra ríflega 70 lúxusíbúða við Austurhöfn nemur alls 13 milljörðum króna, meðalfermetraverð er tæplega 1,2 milljónir.
Þær ríflega 70 lúxusíbúðir sem eru komnar til sölu við Austurhöfn í miðbæ Reykjavíkur eru metnar á þrettán milljarða króna, miðað við uppsett verð. Meðalfermetraverð, af þeim íbúðum sem verð er gefið upp, nemur tæplega 1,2 milljónum króna.
Þetta má sjá út frá íbúðalista sem er á heimasíðu félagsins en verð fyrir íbúðir á sjöttu hæð er ekki uppgefið.
Til þess að reikna heildarverðmæti íbúðanna gerir Viðskiptablaðið ráð fyrir meðalfermetraverði á þeim íbúðum sem verð er gefið upp.
Uppsett verð íbúðanna er á bilinu 59 milljónir króna til 345 milljónir og er fermetraverð ódýrustu eignarinnar tæplega 1,2 milljónir króna en ríflega 1,6 milljónir hjá dýrustu eigninni.
Tæplega helmingur íbúðanna er á bilinu 170-360 fermetrar, 34% af íbúðunum á bilinu 100-150 fm. og um 20% á bilinu 50-100 fm.
Samkvæmt ársreikningi Austurhafnar ehf. fyrir árið 2018 nema heildareignir félagsins ríflega 6,8 milljörðum króna.
Skuldir þess nema alls 5,6 milljörðum og eigið fé 1,2 milljörðum.
Eiginfjárhlutfall félagsins var í lok ársins 2018 var 18,2%. Apartnor ehf. á tæplega 80% hlut og Arion banki á tæplega 20% hlut í félaginu.
Heimild: Vb.is