Vinna við Hús íslenskunnar hefur haldið áfram samkvæmt áætlun það sem af er ári. Veður í vetur hægði heldur á framkvæmdinni, sem þó er á þeim stað sem til stóð.
Enn hefur Covid-19 faraldurinn ekki haft veruleg áhrif á byggingarframkvæmdirnar.
Nú stendur yfir uppsteypa á 1. hæð byggingarinnar og sporöskjulagað form byggingarinnar farið að myndast. Þá er steypuframkvæmdum á kjallara að mestu lokið.
Rétt fyrir síðustu mánaðamót fóru tíðindamenn Framkvæmdasýslunnar á stjá og tóku viðtöl við Ögmund Skarphéðinsson, arkitekt byggingarinnar og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem var menntamálaráðherra þegar hönnunarsamkeppni um Hús íslenskunnar var haldin árið 2008.
Í myndbandinu hér að neðan segja þau frá hönnun hússins og aðdraganda hennar, en minnstu munaði að áform um bygginguna yrðu slegin af í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008.
Þættirnir eru framleiddir af Skjáskoti í samstarfi við Framkvæmdasýsluna, Happdrætti Háskóla Íslands og Ístak hf.
Heimild: Fsr.is