Framkvæmdasýsla ríkisins og Sveitarfélagið Árborg hafa samþykkt að ganga til samninga við Eykt ehf um byggingu hjúkrunarheimilis sem rísa mun á Selfossi.
Bæjarráð Árborgar samþykkti erindi frá framkvæmdasýslunni á fundi í október, þar sem þetta var lagt til.
Um leið bókaði bæjarráð og fagnaði að loks skuli komið að framkvæmdum um byggingu hjúkrunarheimilis á Selfossi.
Fyrsta skóflustungan að hjúkrunarheimilinu verður að öllum líkindum tekin síðar í nóvember.
Eykt var lægstbjóðandi í verkið og hljóðaði tilboð fyrirtækisins upp á tæpar 2.226 milljónir króna.
Ríkissjóður og Framkvæmdasjóður aldraðra munu greiða 84% af kostnaðinum en Árborg 16%. Hlutur Árborgar er því um 356 milljónir króna.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við hjúkrunarheimilið verði lokið sumarið 2021 og að hægt verði að taka það í notkun með haustinu 2021.
Heimild: Sunnlenska.is