Home Fréttir Í fréttum Borgarbyggð sýknuð af kröfu um bótaskyldu

Borgarbyggð sýknuð af kröfu um bótaskyldu

251
0
Borgarbyggð 57 og 59 þegar framkvæmdir voru langt komnar vorið 2018. Ljósm.Skessuhorn.is

Borgarbyggð var í Landsrétti á föstudag sýknuð af kröfu um bótaskyldu Húsa og lóða ehf. Þar með staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Vesturlands frá því í febrúar síðastliðnum.

<>

Fyrirtækið krafðist þess að bótaskylda yrði viðurkennd vegna tjóns sem hlaust af byggingarleyfi sem gefið var út 16. september 2016, fyrir nýbyggingum við Borgarbraut 57 og 59 og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi síðan úr gildi 23. desember sama ár.

Sá úrskurður hafi gert það að verkum að tafir yrðu á framkvæmdum við nýbygginguna með tilheyrandi tjóni. Borgarbyggð krafðist frávísunar, en sýknu til vara.

Í dómi Landsréttar segir að skilmálar aðal- og deiliskipulags hafi verið báðum aðilum aðgengilegir og hafi mátt vera þeim kunnir, þar með taldar þær takmarkanir sem voru á landsnotkun lóðarinnar.

„Með því að hefja framkvæmdir á grundvelli byggingarleyfisins tók áfrýjandi þá áhættu að látið yrði reyna á gildi þess og gat ekki gengið út frá því að úrlausn mögulegra ágreiningsefna vegna þess félli honum í hag,“ segir í dómnum.

Þá beri að líta til þess að áfrýjanda hafi verið unnt að halda framkvæmdum áfram þann tíma sem byggingarleyfið var í gildi, sem hafi verið ívilnandi fyrir hann.

Þá verði ekki séð að ákvörðun um veitingu byggingarleyfis og afgreiðsla þess hjá byggingarfulltrúa hafi verið með þeim hætti að stofna sveitarfélaginu bótaskyldu.

„Hinn áfrýjaðir dómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda, Borgarbyggðar, af viðurkenningu á bótaskyldu gagnvart áfrýjanda, Húsi og lóðum ehf.,“ segir í dómsorði Landsréttar. Málskostnaður var felldur niður.

Heimild: Skessuhorn.is