Verktaki á fimmtugsaldri þarf að greiða húseiganda 2 milljónir króna í skaðabætur vegna verktakasamnings.
Karlmaður á fimmtugsaldri var í Héraðsdómi Reykjaness í liðinni viku dæmdur til að greiða einstaklingi rúmlega 2 milljónir króna í skaðabætur vegna vanefnda á samningi um vinnu við hús þess síðarnefnda.
Til hægðarauka verður í greininni talað um dómþola sem verktaka en þann síðarnefnda sem húseiganda.
Í nóvember 2017 sá húseigandinn auglýsingu í Fréttablaðinu þar sem fyrirtæki verktakans, Múrum og smíðum ehf., auglýsti að það tæki að sér jarðvinnu og vinnu við tréverk.
Hafði hann samband við fyrirtækið og varð það úr að samkomulag varð um að fyrirtækið myndi fjarlægja bárujárn og þakrennur af húsi húseigandans og setja nýtt í staðinn.
Þá átti einnig að breyta þakkanti, þakrennum, leggja drenrör um húsið og grófjafna lóðina.
Fyrir þetta skyldu greiðast 4,5 milljónir króna og áætlaður verktími á bilinu tvær til þrjár vikur með fyrirvara um veðurskilyrði.
Daginn eftir að samkomulag náðist mætti verktakinn á staðinn með vinnuflokk og vélar með sér.
Gröftur fyrir drenlögn hófst samstundis og tjáði verktakinn eigandanum að vinnu yrði lokið fyrir 1. desember 2017 ef 2,5 milljónir króna yrðu greiddar inn á verkið.
Var það gert. Degi síðar bað verktakinn um 500 þúsund til viðbótar vegna kaupa á efni og var það einnig greitt.
Skemmst er frá því að segja að verktakinn lét ekki sjá sig framar og náði eigandinn ekki sambandi við hann eftir þetta utan einu sinni.
Varð verktakinn þá hinn versti, að sögn húseigandans, og spurði hvað „[húseigandinn] væri að ónáða hann.“
Árangurslaust fjárnám þremur vikum fyrr
Samningnum var rift í janúar 2018 en í apríl sama ár var Múrum og smíðum ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Frá skiptastjóra þrotabúsins fékk húseigandinn þau svör að árangurslaust fjárnám hefði verið gert hjá félaginu um þremur vikum áður en það hóf framkvæmdir á lóð hans.
Sama dag og hann greiddi fjármuni inn á reikning félagsins hefði það síðan millifært stóran hluta upphæðarinnar, rúmar tvær milljónir, inn á reikning verktakans.
Skiptastjóri sendi málið til héraðssaksóknara og er verktakinn grunaður um fjársvik.
Húseigandinn stefndi verktakanum vegna þessa atvika allra saman. Þótt verktakasamningur hefði verið gerður við félagið hafi öll samskipti hans verið við verktakann, eiganda og framkvæmdastjóra félagsins, og ljóst að hann hafi beitt blekkingum og svikum til að koma samningnum á.
Þrátt fyrir takmarkaða ábyrgð eiganda á skuldbindingum einkahlutafélaga fríi það ekki eigendur og stjórnarmenn af refsi- og skaðabótaábyrgð er þeir „noti félagið sem lepp í fjársvikabroti“.
Taldi húseigandinn að verktakanum hefði borið að láta vita af hinu árangurslausa fjárnámi sem gert var í október 2017 hjá félaginu.
Verktakinn krafðist sýknu á þeim grundvelli að allar fullyrðingar um refsiverða háttsemi væru ósannaðar þar sem endanleg niðurstaða í sakamáli lægju ekki fyrir.
Það myndi ekki standast skoðun að honum yrði gert að sanna sakleysi sitt í einkamáli þar sem sönnunarstaðan væri allt önnur.
Þá hefði samningurinn verið milli húseigandans og Múrum og smíðum en ekki eigandans og verktakans. Bæri því með réttu að beina kröfunni að þrotabúinu.
Þá hafi veður verið válynd á verktímabilinu og af þeim sökum hafi reynst ómögulegt að ljúka því.
Veður hefði ekki átt að hamla framkvæmdum
Í dómi héraðsdóms, sem var fjölskipaður í málinu, segir ekkert bendi til þess að á verktíma hafi veðurfar verið með þeim hætti að það gæti skýrt dráttinn á verkinu.
Í dóminum sagði enn fremur að ekki verði slegið föstu um það hvort gjörðir verktakans feli í sér brot á almennum hegningarlögum eða séu refsiverðar af öðrum ástæðum.
Fyrir dómi var lögð fram matsgerð dómkvadds matsmanns sem áætlaði að sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir vinnuna sem verktakinn þó vann væri 950 þúsund krónur.
Sú upphæð var dregin frá dómkröfu húseigandans og verktakinn því dæmdur til að greiða rúmlega 2 milljónir króna þar sem sannað þótti að hann hefði með ólögmætum og saknæmum hætti valdið húseigandanum skatabótaskyldu tjóni.
Þá var verktakinn einnig dæmdur til að greiða 1 milljón króna í málskostnað.
Heimild: Vb.is