Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fékk öflugt liðsinni ungra iðkenda í Fram og forsvarsmanna félagsins þegar tekin var fyrsta skóflustunga að nýrri íþróttamiðstöð í Úlfarsárdal.
Framkvæmdir hefjast strax og verklok eru áætluð 2022 samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.
Fjölnota íþróttahús, áhorfendastúka fyrir aðalleikvang í knattspyrnu, minni íþróttasalir, félags- og þjónustuaðstaða fyrir starfsfólk, þjálfara og félagsmenn, búningsrými ásamt samkomusal og fundaraðstöðu eru hlutar af íþróttamiðstöðinni.
Hún verður 7.300 fermetrar á þremur hæðum með aðalinngang við sameiginlegt hverfistorg við Úlfarsbraut. Kostnaður við framkvæmdina er áætlaður 4,6 milljarðar.
Íþróttamiðstöðin er austasti hluti bygginga við Úlfarsbraut sem þjóna hverfinu. Í vestari hluta bygginganna eru leik- og grunnskóli ásamt frístundamiðstöð, menningarmiðstöð og sundlaug sem nú eru ýmist fullbyggðar eða í uppbyggingu.
Íþróttaaðstaðan nýja verður nýtt af skólum í hverfinu.
„Allar þessar framkvæmdir eru í umhverfisvottuðu ferli samkvæmt BREEAM, en það er alþjóðlegt vottunarkerfi sem metur visthæfi bygginga,“ segir í tilkynningu frá borginni.
Fullbúin handboltahöll og fjölbreyttir salir
Íþróttamiðstöðin mun hýsa fullbúna handboltahöll með keppnisvelli og áhorfendapöllum fyrir allt að 1.300 manns. Vellinum má skipta upp í tvo handboltavelli í fullri stærð. Í húsinu verða þar að auki lyftingasalur, fjölnota æfingasalur og bardagasalur. Búningsklefar eru 15 talsins, þar af sérklefi fyrir hreyfihamlaða iðkendur.
Mikið hefur verið lagt upp úr félagsrýmum íþróttahússins og verður þar að finna fjölbreytta sali að stærð og gerð, á öllum hæðum hússins. Þar verður stór samkomusalur ásamt framreiðslueldhúsi og þaksvölum, tveir fjölnotasalir með útsýni yfir keppnisvelli og fyrirlestrarsalur.
Aðalaðkomurýmið er skemmtilegt með deildarverslun og veitingasölu, og þaðan er gengt út á svalagang sem umlykur handboltavöllinn. Innangengt verður milli íþróttahúss og menningarmiðstöðvar á 1. hæð byggingar.
Nýr knattspyrnuvöllur verður gervigrasvöllur, með stúku sem rýmir 1.600 áhorfendur. Grasæfingavellir verða einnig á svæðinu.
Heimild: Visir.is