Hægt væri að byggja allt að 1400 íbúðir og verslunar- og þjónustuhúsnæði ofan á Miklubrautarstokki og á ónýttu svæði við Miklubraut.
Samkvæmt útreikningum Reykjavíkurborgar gætu gatnagerðargjöld og byggingarréttur numið rúmlega átta milljörðum, sem er rúmur þriðjungur af kostnaði við stokkinn.
Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaganna um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir því að Miklabraut verði lögð í stokk rétt austan við Kringlu og að gatnamótum við Snorrabraut.
Gert er ráð fyrir að stokkurinn verði tilbúinn árið 2026.
Kostnaður við stokkinn er metinn 21 milljarður króna. Til samanburðar kostuðu Vaðlaheiðargöng um 17 milljarða.
Gert er ráð fyrir því að hægt verði að fjármagna stokkinn að hluta með sölu lóða á svæði sem áður fór undir Miklubraut og veghelgunarsvæði beggja vegna.
Samkvæmt útreikningum sem gerðir voru fyrir Reykjavíkurborg væri hægt að byggja allt að 140 þúsund fermetra af íbúðahúsnæði og 60 þúsund fermetra af verslunar- og þjónustuhúsnæði á því svæði.
Það eru um 1400 íbúðir, sem er jafnmikið og allt Úlfarsárdalssvæðið þegar það er uppbyggt að fullu. Þessu til viðbótar er fyrirhuguð uppbygging á Kringlureit.
Umferð úr 45 þúsund bílum í 15 þúsund
Ofanjarðar verður tveggja akreina hverfisgata auk sérakreina fyrir borgarlínu, hjólreiðastíga og gangstétt. Spár gera ráð fyrir því að umferðin ofanjarðar fari úr um 45 þúsund bílum á sólarhring nú í 15 þúsund.
Það er álíka mikil umferð og á Bústaðavegi. Hámarkshraði verði 30-40 kílómetrar á klukkustund. Umferðin í stokknum neðanjarðar verður um 45 þúsund bílar á sólarhring.
Í skýrslu sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir Reiti fasteignafélag kemur fram að stokkurinn mun bæta umferðaröryggi og hvetja til annarra samgöngumáta en einkabílsins.
Jafnframt munu hljóð- og loftgæði aukast og tenging innan hverfa í Hlíðum og Háaleitishverfi batna.
Annar ávinningur er að bílum á Bústaðavegi fækkar um 5000 á sólarhring. Þá batni umferðarflæði um Kringlumýrarbraut því að með minni umferð ofanjarðar á Miklubraut verður hægt að lengja græntíma umferðarljósa á Kringlumýrarbraut.
Heimild: Ruv.is