Reykjavíkurborg er byrjuð að úthluta lóðum í nýju Bryggjuhverfi í Elliðavogi sem enn er á teikniborðinu. Gert er ráð fyrir allt að 850 íbúðum í þessu nýja hverfi. Hverfið ber vinnuheitið Bryggjuhverfi vestur og verður þar sem athafnasvæði Björgunar ehf. er nú á Sævarhöfða. Björgun á samkvæmt samningum að rýma svæðið eigi síðar en í maí 2019. Þau mannvirki sem eru á lóðinni munu víkja fyrir utan sementstankar tveir sem eru syðst á svæðinu og setja mikinn svip á það.
Á fundi borgarráðs 12. október sl. var lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita Bjargi hses. (byggingarfélagi verkalýðsfélaga) vilyrði fyrir byggingarrétti á um 30 íbúðum í hinu nýja hverfi. Einnig var óskað eftir að borgarráð samþykkti að veita Búseta húsnæðissamvinnufélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á markaðsverði á um 35 íbúðum í tveimur húsum í hverfinu. Lóðavilyrðin eru veitt með nokkrum skilyrðum, m.a. að deiliskipulag um lóðina fáist samþykkt og samningaviðræðum Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar um kaup borgarinnar á landinu ljúki með samkomulagi. Borgarráð samþykkti tillögurnar.
Landfylling út í sjó
Nýlega voru kynnt drög að tillögu umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. október 2017, sem unnin er af Arkís, Verkís og Landslagi, vegna gerðar deiliskipulags fyrir Bryggjuhverfi vestur. Svæðið er að mestu á núverandi landfyllingu og afmarkast af núverandi Bryggjuhverfi til austurs, Ártúnshöfða til suðurs og sjó til norðurs og vesturs. Til norðurs snýr deiliskipulagssvæðið til sjávar, en gert er ráð fyrir að núverandi landfylling stækki út í sjó. Til vesturs er fyrirhuguð frekari landfylling í rammaskipulagi Elliðaárvogs og Ártúnshöfða. Landfyllingin verður 25.000 fermetrar og hefur verið samið við Björgun um að sjá um gerð hennar. Þegar því verki lýkur verður ný íbúðarbyggð skipulögð á henni.
Bryggjuhverfi vestur er fyrsti deiliskipulagsáfanginn sem unninn er á grunni rammaskipulags Elliðaárvogs og Ártúnshöfða, sem byggist á áherslum aðalskipulags Reykjavíkur. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir að 90% allra nýrra íbúða, sem reistar verða á skipulagstímabilinu, rísi innan núverandi þéttbýlismarka.
Landslag við voginn og Ártúnshöfða hefur tekið verulegum breytingum af mannavöldum síðustu 50 ár að því er fram kemur í kynningu á hinu nýja deiliskipulagi. Geirsnef fyllti nánast út í voginn þegar umframefni og úrgangi var komið þar fyrir og ós Elliðaánna færðist um einn kílómetra til norðurs. Einnig var fyllt upp vestan og norðan með Ártúnshöfða til aðstöðusköpunar fyrir iðnfyrirtæki og vinnslu jarðefna.
Byggðamynstur Bryggjuhverfis II verður þriggja til fimm hæða randbyggð þar sem samfelld húsaröð í jaðri lóðar upp við götu umlykur húsagarð. Inngarðar verða að mestu leyti ofan á bílgeymslum og skulu að mestu vera bílastæðafríir. Bryggjutorg verður helsti samkomustaður hverfisins, en umhverfis torgið er gert ráð fyrir að blöndun verslunar, þjónustu, skóla og íbúðarhúsnæðis skapi vettvang mannlífs og menningar innan hverfisins. Bryggjutorg tengist fyrirhuguðu Krossmýrartorgi um Breiðhöfða og almenningsrýmum við strönd til norðurs.
„Elliðaárvogur er einn veðursælasti staðurinn í Reykjavík. Þar gætir ekki norðanstrengs og Ártúnshöfðinn skýlir fyrir suðaustanátt. Á landfyllingum neðan höfðans felast tækifæri í nálægð við sjóinn og sundin blá auk greiðra tenginga við útivistarleiðir og ríka náttúru í Grafarvogi og Elliðaárdal,“ segir í kynningu.
Núverandi Bryggjuhverfi er byggt á deiliskipulagi frá 1997, með síðari breytingum. Hverfið er að mestu á landfyllingu í mynni Grafarvogs norðanundir Ártúnshöfða. Byggðin hefur sterkan heildarsvip bryggjuhverfis. Björgun ehf. fékk Björn Ólafs, arkitekt í París, til að annast deiliskipulag og að hluta til hönnun húsa í hverfinu. Fyrstu húsin í Bryggjuhverfinu risu árið 1998.
Hverfið hefur liðið fyrir það að hlé varð á uppbyggingu þess þar til á allra síðustu árum. Að auki var það einangrað frá nágrannahverfum og fulllítið til að vera sjálfbært hvað varðar verslun og þjónustu. Með stækkun Bryggjuhverfisins á næstu árum verður breyting hér á.
Heimild: Mbl.is