Home Fréttir Í fréttum Iðnmenntaðir oft og tíðum á hærri launum

Iðnmenntaðir oft og tíðum á hærri launum

283
0
Mynd: Istak

Heildarlaun iðnmenntaðra starfsmanna eru í mörgum tilfellum hærri en heildarlaun háskólamenntaðra, þetta sýna tölur Hagstofunnar.

<>

Eins og Fréttablaðið greindi frá er atvinnuleysi minna meðal þeirra sem lokið hafa iðnnámi heldur en stúdentsprófi, það er einnig mun minna en þeirra sem lokið hafa háskólanámi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar.

„Við í BHM höfum margoft bent stjórnvöldum á að atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra hefur ekki horfið eftir hrun. Það náði einhverju stigi og hefur haldist þar og það hefur verið okkur mikið áhyggjuefni,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

„Allt snýst þetta um fjölbreytt störf á vinnumarkaði. Fólk sækir sér menntun sem er gjaldgeng á vinnumarkaði og það segir sig sjálft að í uppgangi eins og núna hafa orðið til mörg störf í iðngreinum. Eins og atvinnuástandið hefur verið hafa ekki orðið til nógu mörg störf ætluð háskólamenntuðu fólki,“ segir Þórunn.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar sem ná yfir meðallaun í einstaka störfum árið 2015 eru heildarlaun iðnmenntaðra rafvirkja til að mynda 662 þúsund krónur á mánuði sem er 1.000 krónum meira en laun hjúkrunarfræðinga og umtalsvert hærra en laun ljósmæðra og sjúkraþjálfara sem og þeirra sem starfa við kennslu og uppeldisfræði.

Sumar greinar sem krefjast háskólamenntunar gefa hærri laun en iðngreinar en oft munar ekki miklu, til dæmis eru þeir sem starfa við sérfræðistörf við endurskoðun með 730 þúsund í heildarlaun á mánuði en þeir sem eru iðnlærðir vélvirkjar eru með 699 þúsund að meðaltali.

Í öðrum störfum sem krefjast háskólamenntunar eru töluvert hærri meðallaun en í störfum sem krefjast iðnmenntunar sé litið til heildarlauna. Læknar voru til að mynda með 1,34 milljónir í heildarlaun á mánuði árið 2015.

„Við gerum engar athugasemdir við það að aðrir hópar fái góð laun. En við minnum enn og aftur á að samkvæmt evrópskum mælingum auðgast tekjur fólks minnst á Íslandi við það að fara í framhaldsnám. Þá er verið að bera saman við ófaglærða. Sú staðreynd hefur ekki breyst í mörg ár og henni verður að breyta,“ segir Þórunn.

„Því verður að breyta af því að það verður að borga sig að fara í háskólanám. Það er ekki bara mikilvægt fyrir einstaklinginn heldur fyrir samfélag sem vill halda úti góðri almannaþjónustu.“

Heimild: Visir.is