Home Fréttir Í fréttum Umfangsmikil viðskipti Reykjavíkurborgar við kennitöluflakkara

Umfangsmikil viðskipti Reykjavíkurborgar við kennitöluflakkara

390
0
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ar

Verktakafyrirtæki sem nú er starfrækt að minnsta kosti á fjórðu kennitölunni hefur á árinu landað tveimur stórum verkefnum í útboðum Reykjavíkurborgar. Þá hefur stofnandi fyrirtækisins keyrt sex félög í þrot frá árinu 2007. Verkin sem fyrirtækin lönduðu er bygging nýrrar stúku við leikvöll Þróttar í Laugardalnum sem og rúðuskipti í gjörvöllum Klettaskóla. Áætlaður kostnaður við verkin er um 125 milljónir króna. Eigandi fyrirtækisins er með slóð gjaldþrota í sinni viðskiptasögu og rannsakar skattrannsóknarstjóri meint brot í tengslum við rekstur fyrirtækjanna. Innkaupareglur Reykjavíkurborgar ganga ekki nógu langt til þess að stöðva athæfið.

<>

Sex gjaldþrot frá árinu 2007

Verktakafyrirtækið sem um ræðir heitir Viðhald og viðgerðir ehf. Félagið var stofnað í nóvember 2015 af athafnamanninum Kristjáni Ólasyni sem hefur frá árinu 2007 stofnað eða verið í forsvari fyrir sex önnur verktakafyrirtæki sem öll eru orðin gjaldþrota. Skattrannsóknarstjóri hefur rannsakað málefni fyrirtækjanna undanfarin misseri.

Í nóvember 2007 samþykkti Samband íslenskra sveitarfélaga fyrirmynd að innkaupareglum sveitarfélaga. Þar var mælst til þess að sveitarfélögum væri heimilt að kanna viðskiptasögu eigenda og ef sú könnun leiddi í ljós að eigandi eða fyrirtæki hans hafi lent í greiðslustöðvun eða gjaldþroti undanfarin fimm ár bæri að vísa honum frá útboðinu, enda ætti í hlut samskonar rekstrareining, með sömu eða nær sömu eigendur, í sömu eða nær sömu atvinnustarfsemi, en nýja kennitölu.

Gildandi innkaupareglur Reykjavíkurborgar voru samþykktar á borgarráðsfundi þann 8. maí 2014 í borgarstjórnartíð Jóns Gnarr. Í þeim var ekki gengið jafnlangt og Samband íslenskra sveitarfélaga lagði til sjö árum fyrr. Aðeins er heimilt að kanna viðskiptasögu stjórnenda fyrirtækja ef talið er að fyrirtæki hafi gefið rangar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega getu sína eða hefur ekki lagt slíkar upplýsingar fram.

Þessi tregða embættismanna og borgarfulltrúa þess tíma til að stemma stigu við kennitöluflakki hefur gert það að verkum að erfitt er að koma í veg fyrir að fyrirtæki, hvers eigendur eru með sviðna jörð eftir sig í viðskiptalífinu, landi stórum verkefnum hjá Reykjavíkurborg. DV óskaði eftir nánari útskýringum frá Reykjavíkurborg í byrjun vikunnar en svör höfðu ekki borist áður en blaðið fór í prentun.

DV gaf Kristjáni Ólasyni færi til þess að tjá sig um málið en hann kaus að þiggja það ekki. Hann vildi einnig bíða þar til dómstólar myndu kveða upp sinn dóm um rannsókn skattrannsóknarstjóra.

Sviðin jörð – brot af viðskiptasögu Kristjáns Ólasonar

  1. Í ágúst 2007 stofnaði Kristján verktakafyrirtækið TS Málun ehf. ásamt Kjartani Inga Kjartanssyni. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 14.september 2009.
  2. Í október 2007 stofnaði Kristján verktakafyrirtækið TS Hús ásamt áðurnefndum Kjartani og Lúðvíki Vilhelmssyni. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 17.maí 2010.
  3. Í janúar 2008 stofnaði Kristján TS Byggingar ehf. ásamt Jóni Óskarssyni og Sæmundi Arngrímsson. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 19.desember sama ár
  4. Í febrúar 2009 stofnaði Kristján, eins síns liðs, fyrirtækið Allt viðhald ehf. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 4.mars 2015.
  5. Í apríl 2013 stofnaði Kristján félagið Viðhald og múr ehf. ásamt Hermanni Ragnarssyni og Ingþóri Pétri Þorvaldssyni. Fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota þann 18.febrúar 2015.
  6. Í desember 2014 tók Kristján yfir félagið IÞ Flutningar ehf. og breytti heiti þess í Viðhald og endurbætur ehf. Hann varð framkvæmdastjóri fyrirtækisins og fór með prókúruumboð. Kristján lét af framkvæmdastjórastöðunni þann 8.júní 2015. Hann hélt prókúruumboðinu allt þar til að fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota þann 16.júní 2016.
  7. Í nóvember 2015 stofnaði Kristján Viðhald og viðgerðir ehf. Félagið er enn í rekstri og tveimur stórum verkefnum í útboði hjá Reykjavíkurborg á árinu. Samanlagt andvirði verkanna er um 125 milljónir króna

Heimild: DV.is