Home Fréttir Í fréttum Dagur: Borgin innan heimilda á Hlíðarenda

Dagur: Borgin innan heimilda á Hlíðarenda

72
0
©Vb.is

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að Reykjavíkurborg hafi verið innan fullra heimilda þegar gefið var út framkvæmdaleyfi á svæði Valsmanna við Hlíðarenda. Um undirbúningsframkvæmdir sé að ræða sem séu utan fluglínu.

<>

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir það hafa verið með öllu ótímabært að gefa út framkvæmdaleyfi og hefja framkvæmdir við Hlíðarenda. Þetta kemur fram í bréfi hennar til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra en frá þessu er greint í Kjarnanum. Hún segir að flugbraut 06/24, eða neyðarbrautinni eins og hún er oft kölluð, verði ekki lokað meðan niðurstöður Rögnunefndar svokölluðu um könnun á flugvallarkostum liggi ekki fyrir.

Framkvæmdir hófust á Hlíðarenda hinn 14. apríl og eru þær undanfari uppbyggingar íbúðahverfis á svæðinu en gert er ráð fyrir að 800-850 íbúðir rísi á svæðinu á næstu sex árum.

„Þetta eru undirbúningsframkvæmdir sem eru vegna byggingarreita utan við fluglínu. Þannig að þær varða út af fyrir sig ekki völlinn til eða frá,“ segir Dagur B. Eggertsson.

Reykjavíkurborg fer með skipulagsvald á þessu svæði og er innan fullra heimilda við veitingu framkvæmdaleyfis, ekki satt. Er það ekki efnislega það sem mun koma fram í svörum borgarinnar til ráðherra? „Borgin er bæði bundin af lögum og gildandi skipulagi og þeim samningum sem gerðir hafa verið um svæðið. Það á líka við um ráðuneytið. Þetta bréf varðar skipulagsreglur um flugvöllinn sem hefðu átt að taka breytingum samhliða breytingum á deiliskipulagi sem unnið var í nánu samráði við ráðuneytið. Samningar kveða skýrt á um það. Þó okkur sé ljóst að það hafi tafist hjá ráðuneytinu að breyta skipulagsreglum þá hljótum við að gera ráð fyrir því að það verði gert.“

Bréf innanríkisráðherra verður lagt fyrir borgarráð í vikunni.

„Þær framkvæmdir sem þegar eru hafnar eru utan fluglínu. Það er hins vegar ágætt að fá þetta bréf til þess að upplýsa um þessa þætti málsins og eyða óvissu,“ segir Dagur.

Heimild: Vísir.is