Home Fréttir Í fréttum Þetta hús reis fyrir 40% af kostnaði í Reykjavík

Þetta hús reis fyrir 40% af kostnaði í Reykjavík

194
0
Tálknafjörður Mynd: Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Eftir áratuga ördeyðu í íbúðabyggingum á Vestfjörðum er búið að reisa tvö raðhús á Tálknafirði og taka grunninn að öðrum tveimur. Byggingarkostnaður reyndist vera innan við 40 prósent af því sem er á Reykjavíkursvæðinu. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Indriða Indriðason, oddvita og sveitarstjóra Tálknafjarðar.

<>

Ný íbúðarhús í þorpum Vestfjarða undanfarinn áratug má líklegast telja á fingrum annarrar handar. Á Hólmavík reis raðhúsalengja fyrir fjórum árum og nú er þessi komin upp á Tálknafirði og búið að steypa sökklana að þeirri næstu. Það er ekki tilviljun að húsin rísi á Tálknafirði. Þar er vagga fiskeldisins á Vestfjörðum.

„Það er kannski bara í takt við það sem er að gerast hér á þessu svæði. Það er aukin þörf eftir húsnæði og við sjáum ekkert annað en vænkandi hag hér,” segir Indriði.

Það er sveitarfélagið sjálft sem stendur að húsbyggingunni í gegnum eigið fasteignafélag og það er orðið langt síðan síðast reis hér íbúðarhús.

„Ég veit að það var hús reist hér í Tálknafirði fyrir einhverjum tólf árum síðan. En þar á undan held ég að menn séu að tala um tuttugu ára eyðimerkurgöngu.”

Indriði Indriðason, oddviti og sveitarstjóri Tálknafjarðar. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Stærðin er miðuð við að húsin geti hentað fjölskyldum. Hvor íbúð er um 130 fermetrar að stærð og með bílskúr. Þá er þetta fyrsta íbúðarhúsið í þorpinu á Tálknafirði sem kynnt er með heitu vatni.

Og hér eru ekki íþyngjandi lóðagjöld sem setti byggingarkostnað niður í 280 þúsund krónur á fermetrann.

„Ætli hann sé ekki 35 til 40 prósent af því sem hann er á höfuðborgarsvæðinu.”

Fyrir vestan þykir mönnum skjóta skökku við að á meðan erlendir fjárfestar eru tilbúnir að hætta milljörðum króna í fiskeldisbyggingar gengur erfiðlega að fá lán til íbúðabygginga í íslenskum lánastofnunum.

„Því miður er það bara þannig að trú manna á landsbyggðinni er ekki meiri en svo að lánastofnanir ganga ekki í takt við það sem er að gerast hér. Það er bara svoleiðis,” segir Indriði oddviti.

Heimild: Visir.is