Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir á flugbrautum í Keflavík höfðu áhrif á að vélum var lent...

Framkvæmdir á flugbrautum í Keflavík höfðu áhrif á að vélum var lent á Egilsstöðum

89
0

Hluti af ástæðu þess nokkrum flugvélum á leið til Keflavíkur var beint til Egilsstaðaflugvallar og einni var flogið til Edinborgar í gærkvöldi er að framkvæmdir standa nú yfir á flugbrautum Keflavíkurflugvallar.

<>

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að það hafi verið skýjahæðin sem var þess valdandi að ákvörðun var tekið að vélunum var ekki lent í Keflavík í gærkvöldi. Hins vegar standi nú yfir framkvæmdir á flugbrautum þar sem verið sé að lagfæra blindaðflugsbúnað. Hefði hann verið tengdur hefði mögulega verið hægt að lenda vélunum í gær.

„Það eru framkvæmdir í gangi við brautarmótin – nyrðri enda N/S -brautarinnar og austasta enda A/V-brautarinnar. Þær snúa að þessum blindaðflugsbúnaði, svokölluðum ILS eða aðflugshallageisla sem er búnaður sem vélin tengir sig við og getur þá lent í minna skyggni. Þessi búnaður er ekki í gangi þar sem búið er að færa brautarendann innar á brautina á meðan á framkvæmdum stendur við þennan enda. Búnaðurinn ekki réttur, ef brautarendinn færist. Notast er við GPS-aðflug og þá lenda þeir ekki þegar skýjahæð er eins lág og hún var í gær,“ segir Guðni.

En ef þessi búnaður hefði verið tengdur, þá hefðu þeir mögulega lent þarna í gær?

„Þá hefðu þeir mögulega lent. Það fer auðvitað eftir flugfélögum og aðstæðum hverju sinni hvað þeir gera. En búnaðurinn býður upp á lendingu við mun lægri skýjahæð en var þarna í gær.“

Ráðist í framkvæmdir á sumrin

Guðni segir að ráðist sé í framkvæmdir sem þessar á sumrin þar sem skyggni sé best á þeim árstíma. Hann segir að framkvæmdum á N/S-braut muni ljúka á næstu dögum og verði hún þá opnuð aftur í fullri lengd. „Þetta eru framkvæmdir sem hófust síðasta sumar og verða í þetta sumar líka. Það er gert í samráði við flugfélögin, nákvæmlega hvert framkvæmdaplanið sé og hvaða takmarkanir eru á þjónustu á meðan. Það er samt mismunandi á framkvæmdatímanum hvernig þjónustan takmarkast.“

Hann segir að framkvæmdirnar hafi í raun haft muni minni áhrif ef fyrirfram var talið. Mat hafi verið gert á áhrifum framkvæmdanna þar sem fram kom að það gætu komið dagar þar sem vélar gætu ekki lent á Keflavíkurflugvelli yfir einhver ákveðin tímabil. „Þetta hefur verið minna en það mat gerði ráð fyrir. En svo hafa komið tímar, eins og í gær, þá var það í um klukkutíma þar sem skýjahæðin var of lág.“

Fyrri hluta sumars hafa farið í framkvæmdir á brautarmótum N/S og A/V-brautar og þegar þeim lýkur verður farið í framkvæmdir á A/V-brautinni. Þá verður N/S-brautin opin í fullri lengd. „Verið er að malbika brautirnar og skipta út rafmagninu, úr bandaríska kerfinu í það evrópska. Framkvæmdir sem þessar eru gerðar á um tuttugu ára fresti. Það er vandað mjög til malbiksframkvæmda á flugbrautum til að ekki þurfi að gera það jafnoft eins og til dæmis á Miklubrautinni,“ segir Guðni.

Heimild: Visir.is