Home Fréttir Í fréttum Sextíu íbúðir fyrir sextíu ára og eldri verða reistar við Stakkahlíð í...

Sextíu íbúðir fyrir sextíu ára og eldri verða reistar við Stakkahlíð í Reykjavík á næstu tveimur árum

233
0
Sextíu íbúðir fyrir sextíu ára og eldri verða reistar við Stakkahlíð í Reykjavík á næstu tveimur árum. Borgarstjóri undirritaði viljayfirlýsingu þess efnis í dag. Hann segir að tæplega 500 íbúðir fyrir aldraða verði byggðar í Reykjavík á næstu árum.

„Hérna munu rísa um 60 íbúðir fyrir aldraða sem eru byggðar af Samtökum aldraðra sem er félag sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða. Og við leitum eftir samvinnu við slík félög í þessu uppbyggingarátaki í húsnæðismálum sem er yfirstandandi,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

<>

Það er mikið undirritað af svokölluðum viljayfirlýsingum – þýðir þetta að það verði klárlega af þessu?

„Já. Nú er deiliskipulagið í auglýsingaferli og er að klárast innan fárra vikna. Þannig að þá er hægt að úthluta lóðinni formlega og framkvæmdir geta hafist næsta vetur.“

Hvenær er stefnt að því að taka þetta í notkun?

„Tveimur árum frá upphafi uppbyggingar, myndi ég halda.“

Íbúðirnar verða flestar litlar, eða 40 til 60 fermetrar að stærð. Samtök aldraðra skuldbinda sig til að leita hagkvæmustu leiða í samningum við verktaka.

Þetta eru 60 íbúðir, en þarf ekki töluvert meira?

„Jú. Hrafnista er að fara að byggja inn við Sléttuveg á annað hundrað íbúðir fyrir aldraða, síðan er Félag eldri borgara að byggja uppi í Mjódd rúmlega 50 íbúðir og Grund er að byggja inni í Mörk þannig að þetta eru tæplega 500 íbúðir sem verið er að byggja fyrir aldraða. Og við heyrum bæði á Félagi eldri borgara og Samtökum aldraðra að þau eru tilbúin til að vinna með okkur við að byggja meira á næstu árum, eftir því sem eftirspurnin kallar á,“ segir Dagur.

Heimild: Ruv.is