Milljarðs fjárfesting
Auk þess að byggja tvö þúsund fermetra vinnslu við þá sem fyrir er hefur Guðmundur Runólfsson hf. gert samninga við Marel um kaup á nýjum vinnslulínum, bæði fyrir bolfisk og karfa. „Markaðurinn er að breytast, kröfurnar eru harðari og meiri og ef maður ætlar að vera með þá verður maður að fara þessar leiðir,“ segir Runólfur Guðmundsson, stjórnarformaður fyrirtækisins. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar og ný tæki er talinn hlaupa á milljarði eða meiru. Runólfur segir að þrátt fyrir erfiðleika í sjávarútvegi vegna sterkrar stöðu krónunnar hafi undanfarin þrjú til fjögur ár hafi verið veltugóð.
Auka framleiðslu með sama starfsmannafjölda
„Það verða stundaðar fiskveiðar við Ísland. áfram. Það eru erfiðleikar í dag en við höfum kynnst þeim áður,“ segir Runólfur. Útlitið hafi ekki alltaf verið bjart í sjötíu ára sögu fyrirtækisins. Með nýrri tækni í nýju húsnæði eru vonir bundnar við að auka megi við afköstin úr um 20 tonnum á dag í 30 til 35 tonn. Störf komi til með að breytast og verða tæknilegri en ekki standi til að fækka starfsfólki. „Við erum hér í 900 manna samfélagi með 90 manns í störfum og við berum hér heilmikla samfélagslega ábyrgð,“ segir Runólfur. Stefnt er á að vinnslan taki til starfa í nýju húsnæði 18. ágúst 2018.
Leikskólabörn í Grundarfirði tóku fyrstu skóflustunguna um helgina.
Heimild: Ruv.is