Home Fréttir Í fréttum Fornminjar fundust á framkvæmdasvæði

Fornminjar fundust á framkvæmdasvæði

140
0
Á skömmum tíma hafa fræðingar komið niður á kuml sem liklegt er talið að sé frá víkingaöld. Vísir/Auðunn

Fornleifauppgröftur við Dysnes norðan Akureyrar hefur borið árangur. Á skömmum tíma hafa fræðingar komið niður á kuml sem líklegt er talið að sé frá víkingaöld. Vísbendingar benda til að mun fleiri kuml finnist á svæðinu á næstu dögum.

<>

„Við höfum nú fundið mannabein og tönn úr hundi. Algengasta haugféð frá þessum tíma voru hestar en það er einnig vitað af því að hundar hafi verið grafnir með eigendum sínum. Það er erfitt að tímasetja nákvæmlega frá hvaða tíma þetta kuml er því gjóskulög er ekki að finna hér,“ segir Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur sem vinnur að rannsókninni.

„Það er þannig að ef við finnum eitt kuml er líklegt að fleiri séu á staðnum. Við höfum séð það í gegnum tíðina,“ segir Hildur en örnefnið gefur tilefni til þess að fjöldi kumla sé á staðnum. „Örnefni eru oft þannig að þau gefa vísbendingar um hvað hafi farið fram. Smiðjuhóll er til dæmis merki þess að smiðja hafi verið starfrækt og svo framvegis. Að öðru leyti eru ekki til miklar heimildir,“ bætir Hildur við.

Á næstu dögum munu rannsóknaraðilar opna stærra svæði til að gera sér betur grein fyrir fjölda kumla. Dysnesið sjálft er ekki mjög stórt og því verður stór hluti þess kannaður frekar. Nokkur hundruð metrum sunnan við Dysnes er Gáseyri sem á víkingaöld var mikil verslunarhöfn.

Rannsókn fornleifafræðinganna er hluti af umhverfismati fyrir stórskipahöfn á Dysnesi með allt að 300 metra viðlegukanti sem fyrirtæki og sveitarfélög í Eyjafirði áforma að byggja á næstu árum. Hafnarmannvirki sem þetta er ekki til á norðanverðu landinu og á að þjóna olíuleit á Drekasvæðinu sem og námagreftri á austurströnd Grænlands. Einnig hefur þessi framkvæmd verið markaðssett sem umskipunarhöfn fyrir siglingar yfir norðurpólinn. Framkvæmdin er talin munu kosta tæpa 20 milljarða króna.

Heimild: Visir.is