Home Fréttir Í fréttum Segir framsal lóða litlu breyta

Segir framsal lóða litlu breyta

80
0
Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Það breytir litlu um húsnæðisvandann í Reykjavík, þótt ríkið ætli að selja Reykjavíkurborg stórar lóðir. Þetta segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Uppbygging á lóðunum taki of langan tíma. Halldóri líst hins vegar ágætlega á önnur áform stjórnvalda í húsnæðismálum.

Stjórnvöld kynntu á föstudaginn áætlun í 14 liðum um hvernig þau hyggjast takast á við húsnæðisvandann. Á meðal þeirra aðgerða er viljayfirlýsing ríkis og Reykjavíkurborgar, um að ríkið framselji lóðir í sinni eigu til borgarinnar. Gert er ráð fyrir að hægt verði að byggja minnst 2.000 íbúðir á lóðunum. Borgarstjóri vonar að fyrstu íbúðir verði afhentar 2019 eða 2020. En hvaða lóðir eru þetta helst?

<>

Fyrst ber að nefna hina svokölluðu Landhelgisgæslulóð við Seljaveg. Lóðin er 3.200 fermetrar og áætlað er að þar geti risið 75 íbúðir.

Þá er gert ráð fyrir uppbyggingu á lóð Borgarspítalans, í ljósi þess að uppbygging fyrir Landspítalann verður við Hringbraut. Áætlað er að reiturinn geti rúmað um 150 íbúðir.

Á lóð Listaháskólans við Laugarnesveg stendur til að kanna hvort hægt sé að skipuleggja íbúðabyggð samhliða starfsemi skólans. Áætlað er að reiturinn geti rúmað um 150 íbúðir.

Þá eru uppi stór áform um svæðið í kringum Keldur og Keldnaholtið, bæði hvað varðar íbúðabyggð og atvinnustarfsemi. Þar gætu risið að minnsta kosti 1.300 íbúðir, og 150.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði.

Á lóð Sjómannaskólans við Háteigsveg er áætlað að hægt sé að byggja um 120 íbúðir, sem sérstaklega yrðu ætlaðar námsmönnum og ungu fólki.

Og á lóð Veðurstofunnar við Bústaðaveg er svo gert ráð fyrir að hægt sé að byggja um 150 íbúðir.

„Það hefur ekkert breyst“

En hvernig líst fulltrúum minnihlutans í borgarstjórn á þessi áform?

„Þetta er búið að vera í umræðunni lengi,“ segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn. „Ég held samt að þetta breyti voðalega litlu í húsnæðismálum næstu árin vegna þess að þetta er bara viljayfirlýsing. Það þarf að fara í skipulagsmál og svo þarf að byggja. Þannig að það er alveg óbreytt að við þurfum að horfa til Úlfarsárdalsins og horfa meira austur fyrir Elliðaár. Það hefur ekkert breyst við þetta.“

Þannig að þér finnst þessi uppbygging gerast of hægt?

„Já hún gerist of hægt. Það er verið að tala um 2.000 íbúðir þarna, þær bætast þá við allar þúsundirnar sem eru í glærunum hans Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Fólk hefur ekki getað flutt inn í þær glærur ennþá þannig að því miður bætist þetta bara þar við,“ segir Halldór.

En er það ekki jákvætt, að ríkið ætli að selja borginni þessar lóðir? Var það ekki tímabært?

„Jú eflaust, en eins og ég segi, þá er þetta bara viljayfirlýsing. Og svo er ekkert víst að það verði hægt að byggja á öllum lóðunum. Það eru til dæmis margir efins um Veðurstofuhæðina. Það er auðvitað eitthvað sem verður skoðað betur. Við Sjálfstæðismenn höfum stutt þéttingu byggðar en við höfum upplifað að það gerist alltof hægt og þess vegna viljum við líka fara austur fyrir Elliðaár,“ segir Halldór. „Það þarf hugarfarsbreytingu af því að það þarf 5.000 íbúðir. Við höfum ítrekað lagt það til að við nýtum það land sem við eigum. En það virðist bara ekki passa inn í trúarbrögð meirihlutans í Reykjavík.“

Halldór segist þó ánægður með sumt af því sem kynnt var á föstudaginn.

„Sá þáttur yfirlýsingarinnar sem snýr að því að laga kerfið eitthvað, og það sem ríkið getur gert, mér líst ágætlega á það,“ segir hann.

Heimild: Ruv.is