Home Fréttir Í fréttum Vegagerðin vill að borgin greiði 10 milljarða

Vegagerðin vill að borgin greiði 10 milljarða

108
0
Vega­gerðin vill innri leiðina frá Geld­inga­nesi en borg­in hef­ur samþykkt að fara ytri leiðina.
Vegamálastjóri gagnrýnir að borgaryfirvöld hafi í raun útilokað hagkvæmari útfærslu fyrsta áfanga Sundabrautar með skipulagningu Vogabyggðar. Fljótlega verði að bregðast við því að Ártúnsbrekka geti ekki borið mikið meiri umferð. Vegagerðin hefur sent borgaryfirvöldum bréf þar sem bent er á að Vegagerðin muni krefja Reykjavíkurborg um þann aukna kostnað sem felst í því að hagkvæmari leið hafi verið útilokuð.

Umræðan um Sundabraut hefur vaknað að nýju í ljósi áforma nýs samgönguráðherra um blandaða fjármögnun framkvæmda og innheimtu veggjalda. Vegagerðin telur brýnt að legga drög að fyrsta áfanga Sundabrautar til að létta undir umferð í Ártúnsbrekku en hún telur ljóst að hún beri ekki mikið fleiri bíla og áður en langt um líður þurfi að huga að öðrum kostum.

<>

Tveir kostir voru á borðinu

Tveir valkostir Sundabrautar hafa verið á borðinu. Annarsvegar ytri leiðin svokallaða, þverun frá Kleppi yfir í Gufunes ýmist með hábrú eða botngöngum og svo innri leiðin það sem stuðst er við landfyllingu. Vegagerðin telur hana mun ódýrari. Aðrir áfangar Sundabrautar eru ekki taldir jafnbrýnir. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að ný Vogabyggð, þar sem félag Ólafs Ólafssonar hyggst reisa íbúabyggð, útiloki í raun innri leiðina og Vegagerðin hefur sent bréf á borgaryfirvöld þar sem vinnubrögðum þeirra er mótmælt.

„Við förum fyrir örfáum árum að sjá að borgin er farin að skipuleggja byggð á svæði innri leiðar og við skrifum strax bréf og í raun og veru köllum eftir skýringum og óskum eftir viðræðum og í raun mótmælum að það sé haldið áfram án samráðs við okkur. Það sem við erum svo núna að árétta með þessu nýja bréfi er að við sjáum það og heyrum í fréttum að þarna er búið að úthluta lóðum og þar með er formlega búið að útiloka þessa innri leið“ segir Hreinn.

Innri leiðin útilokuð

Hreinn segir að Vegagerðinni sé skylt að leita hagkvæmustu leiða og innri leiðin sé ódýrari.

„Við erum ekkert að segja að hún hefði orðið ofan á en hún hefði alla vega átt að vera valkostur til móts við hina. Nú er það ekki hægt lengur og við erum bara að benda á að þá gilda lög í landinu og það er samkvæmt ákveðinni grein í vegalögum hægt að fara fram á við sveitarfélög að þau greiði kostnaðarmuninn ef þau ákveða að fara dýrari leiðina“ Segir Hreinn.

Líklega um 10 milljarða kostnaður

Hreinn telur að aukinn kostnaður við að fara ytri leiðina gæti numið allt að 10 milljörðum.  Hann segir að borgaryfirvöld hafi hundsað bréf Vegagerðarinnar.

„Við höfum hreinlega ekki fengið viðbrögð við bréfum okkar, við höfum sent þau til þeirra en ekki fengið hvorki mótmæli né kvittun fyrir móttöku bréfanna“ segir Hreinn.

„Einstrengisstefna borgarinnar“

Jón Gunnarsson samgönguráðherra ræddi málið í Silfri Egils í gær. Þar gagnrýndi hann borgina harðlega.

„Það er lagastoð fyrir því að fari sveitarfélagið ekki að vilja Vegagerðarinnar í þessu og í samráði við þá að þá getur Vegamálastjóri sent reikninginn á sveitarfélagið. Það er bara staðan sem er komin upp í þessu máli. Þessi einstrengisstefna borgaryfirvalda að spila ekki með yfirvöldum um lagningu þjóðvegakerfisins hérna á höfuðborgarsvæðinu getur orðið borgarbúum dýr þegar upp verður staðið“ segir Jón.

Dagur B Eggertsson borgarstjóri átti þess ekki kost að veita viðtal því hann er erlendis. Ekki náðist í Hjálmar Sveinsson formann skipulagsráðs.

Heimild: Ruv.is