Home Fréttir Í fréttum Fjárfestar áhugasamir um Sundabraut

Fjárfestar áhugasamir um Sundabraut

177
0
Vega­gerðin vill innri leiðina frá Geld­inga­nesi en borg­in hef­ur samþykkt að fara ytri leiðina.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, segir að nokkrir fjárfestar hafi leitað upplýsinga hjá Vegagerðinni og ráðuneytinu um Sundabraut með það í huga að leggja brautina gegn endurgreiðslu.

<>

Þetta kemur fram í svari Jóns við fyrirspurn Bessíar Jóhannsdóttur, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, um lagningu Sundabrautar. Í svari Jóns kemur fram að athuganir fjárfestar hafi ekki leitt til frekari samningaviðræðna enn sem komið er.

Í svarinu er bent á að í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2015 til 2026, sem lögð var fyrir veturinn 2015-2016 , er ekki lagt til að veitt verði fé til Sundabrautar. Þess í stað komi fram að „leitað verði leiða til að fjármagna Sundabraut í samstarfi við einkaaðila“.

Þá er bent á að Sundabraut hafi verið á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar allt frá árinu 1984 og samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar fyrir árin 2001–2024 hafi Sundabraut verið ætlað mikilvægt hlutverk í stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins. Þannig hafi hún verið og sé enn forsenda fyrir uppbyggingu á Geldinganesi og síðar á Álfsnesi.

Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Í samþykktu aðalskipulagi Reykjavíkurborgar fyrir árin 2010–2030, sem staðfest var í febrúar 2014, er gert ráð fyrir að Sundabraut gæti verið lögð á skipulagstímabilinu. Í skipulaginu er hins vegar hvorki gert ráð fyrir uppbyggingu á Geldinganesi né á Álfsnesi sem neinu nemur,“ segir í svarinu.

Bessí spurði Jón hvort hann hyggist hafa frumkvæði að því að ganga til viðræðna við Reykjavíkurborg um Sundabraut með það að markmiði að ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar, vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu og tímasetja framkvæmdina. Í svarinu segir Jón:

„Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa allt frá árinu 1995 lagt mikla vinnu í að rannsaka mögulega kosti á legu Sundabrautar. Því miður hefur ekki náðst sameiginleg niðurstaða um ákveðinn kost. Vegagerðin hefur lagt áherslu á svokallaða innri leið sem liggur af Sæbraut um Kleppsmýrarveg. Reykjavíkurborg hefur hins vegar með samþykkt aðalskipulagsins fyrir árin 2010–2030 hafnað þeirri leið en haldið opinni svokallaðri ytri leið sem liggur af Sæbraut norðan Miklagarðs. Kostnaður við ytri leið er gróft áætlaður um 10 milljörðum kr. hærri en við innri leið. Sá kostnaður skýrist fyrst og fremst af því hve stór hluti Sundahafnar er sunnan þeirrar leiðar. Til að siglingar skipa raskist ekki þarf mjög háar brýr eða aðrar mjög dýrar lausnir, svo sem opnanlegar brýr.

Arðsemisreikningar hafa verið hluti af rannsóknum borgarinnar og Vegagerðarinnar samtímis því að mögulegir kostir hafa verið skoðaðir. Samkvæmt þeim útreikningum er innri leiðin hagstæðari. Nokkrir fjárfestar hafa leitað upplýsinga hjá Vegagerðinni og ráðuneytinu um Sundabraut með það í huga að leggja brautina gegn endurgreiðslu. Athuganir þessar hafa ekki leitt til frekari samningaviðræðna enn sem komið er.“

Heimild: Dv.is