Home Fréttir Í fréttum Vilja stöðva lagningu hitaveitu um land sitt

Vilja stöðva lagningu hitaveitu um land sitt

149
0
Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Eigendur jarðar í Húnaþingi vestra vilja stöðva lagningu hitaveitu í Miðfirði þar sem þeir telja sveitarfélagið ekki hafa leyfi til að grafa hitaveitulögn í gegnum land þeirra. Lögregla var kölluð til og málið tilkynnt til Skipulagsstofnunar. Sveitarstjórinn segir þetta ekki hafa verið tilkynnt sveitarfélaginu.

Það eru eigendur jarðarinnar Barðs í Miðfirði sem telja að verið sé að grafa hitaveitulögn í gegnum land þeirra í óleyfi. Þeir vilja stöðva framkvæmdir og halda því fram að sveitarfélagið Húnaþing vestra hafi ekki framkvæmdaleyfi í þeirra landareign. Samkvæmt heimildum fréttastofu var verktakinn kominn um 300 metra inn í landið. Mögulegt er að krafist verði mats á umhverfisáhrifum.

<>

24.05.2017 Hitaveitulagnir a jord

Segir landeiganda hafa heimilað framkvæmdirnar

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra, segir ekki rétt að þarna skorti framkvæmdaleyfi. „Landeigandi skuldbatt sig til að taka inn hitaveitu í byrjun árs 2016. Svo hefur lagnaleiðin verið kynnt og henni breytt að þeirra ósk og við fengið staðfestingu frá landeigenda, í tölvpósti reyndar, um að það sé í lagið að fara yfir landið.“

Kölluðu til lögreglu um helgina

Landeigendur kölluðu til lögreglu á sunnudaginn sem bókaði málið og tók niður upplýsingar. Lögreglan segir þó að ekki hafi verið lögð fram kæra. Þá hafa landeigendur tilkynnt málið til Skipulagsstofnunar. Guðný segir sveitarfélagið ekki hafa fengið neina tilkynningu frá lögreglu eða öðrum um málið. Ef það gerist verði tekið á því. „Ég veit að landeigandi hringdi í mig á laugardaginn og talaði um að hún ætlaði að kalla til lögreglu og taka skýrslu. Ég átti von á að heyra eitthvað meira í framhaldi af því, því að ég vissi eiginlega ekki í hverju það almennilega fólst. Þetta kemur svolítið aftan að okkur, ég viðurkenni það. En ef að það er eitthvað sem við þurfum að bæta eða breyta, þá að sjálfsögðu skoðum við það.“

Heimild: Ruv.is