Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra sem hafnaði kröfu Landsnets um svokallaða aðfarargerð í landi Reykjahlíðar. Landsnet krafðist þess að taka til sín um 10 kílómetra svæði, undir háspennulínu og 35 möstur, sem er hluti af framkvæmdum við Kröflulínu 4. Kröfunni var hins vegar hafnað.
Látið reyna á lögmæti eignarnámsins í sumar
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að niðurstaðan hafi ekki komið á óvart. „Það var hægt að búast við þessari niðurstöðu þar sem Hæstiréttur var búinn að setja dómsmálið um gildi heimildar til eignarnáms á dagskrá hjá sér núna í byrjun sumars,“ segir hún.
Dómsmálið sem Steinunn nefnir snýr að því hvort eignarnám Landsnets í landi Reykjahlíðar vegna Kröflulínu 4 og 5 standist lög. Ráðherra heimilaði eignarnámið árið 2015 en landeigendur kærðu ákvörðunina og verður málið dómtekið þann 8. júní.
Orkuafhending til Bakka áformuð í nóvember
Landsnet vildi hins vegar geta hafist handa við að tengja Þeistareykjavirkjun við flutningskerfi raforku og fór þess vegna fram á að fá hluta landsvæðisins strax, þrátt fyrir að dómur liggi ekki fyrir. Markmiðið var að prófa virkjunina sem fyrst, eða áður en orkuafhending til kísilvers PCC á Bakka hefst í nóvember. Það féllst Hæstiréttur ekki á. Steinunn segir að dómurinn hafi þó ekki áhrif á framkvæmdir að svo stöddu. „Þetta hefur ekki nein áhrif sem slík í augnablikinu. Við erum að framkvæma á öðrum stöðum á línuleiðinni þannig það eru engar framkvæmdir í Reykjahlíðinni,“ segir Steinunn.
Hins vegar sé þess beðið að dómur verði kveðinn upp um lögmæti eignarnámsins. Sá dómur gæti haft nokkur áhrif á framvindu verkefnisins.
Heimild: Ruv.is