Home Fréttir Í fréttum Stöðva framkvæmdir vegna mikillar mengunar

Stöðva framkvæmdir vegna mikillar mengunar

309
0
Mynd: Ruv.is
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur stöðvað framkvæmdir við gatnagerð Iðuvalla í Keflavík vegna mikillar tjöru og járnrusls sem kemur upp úr jarðveginum. Á svæðinu eru gamlir ruslahaugar frá Bandaríska hernum. Guðlaugur Sigurðarsson, sviðstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, segir málið „grafalvarlegt“ en unnið sé í fullu samráði við Heilbrigðiseftirlitið við að farga úrgangi.

„Við gerðum ráð fyrir úrgangi á svæðinu – það var gert ráð fyrir um 100 tonnum af járni sem verktakinn átti að sjá um að farga. Það voru þarna einhverjir bílar og braggar og þetta voru gamlir ruslahaugar frá Bandaríska hernum. Þetta hefur verið alveg afgirt svæði í langan tíma. Það hefur verið á skipulagi hjá okkur í 10 ár að byggja þarna verslunarþjónustusvæði og það hefur verið mikið auglýst. Svo byrjuðu sögur um að herinn hafi geymt þarna tjörutunnur og því var ákveðið að vinna þetta í fullu samráði við Heilbrigðiseftirlitið og Verkís.“

<>

Víkurfréttir greindu frá málinu í morgun. Í samtali við Víkurfréttir segir Magnús H. Guðjónsson hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja að þetta séu stórir ruslahaugar sem hafi verið opnaðir. Það þurfi að hafa varann á ef þarna væri að finna úrgangsolíu og þrávirk efni líkt og PCB.

Verktakafyrirtækið ÍAV hefur annast framkvæmdir á svæðinu en flestum lóðum hefur verið úthlutað. Byggingarframkvæmdir áttu að hefjast í sumar en ljóst er að það hægist töluvert á þeim. „Já það mun hægast á þessum framkvæmdum. Við höfum miklar áhyggjur af þessu, við værum ekki að splæsa í eftirlit ef við hefðum ekki áhyggjur, þannig við fylgjumst vel með þessu og ef það skapast einhver hætta munum við að sjálfsögðu strax leysa það.“ segir Guðlaugur.

Heimild: Ruv.is