Home Fréttir Í fréttum 100 milljónir í veg að skíðasvæði Siglfirðinga

100 milljónir í veg að skíðasvæði Siglfirðinga

179
0
siglufjörður
Hundrað milljónum króna hefur verið veitt í nýjan veg að skíðasvæðinu á Siglufirði. Vegurinn er talinn nauðsynlegur hluti endurbóta vegna snjóflóðahættu. Ýmsir undrast þessa fjárveitingu þar sem endurbætur á þjóðvegum víða um land voru skornar niður.

Skíðasvæðið í Skarðsdal við Siglufjörð hefur verið rekið á undanþágu síðustu ár, en hluti þess er skilgreint sem snjóflóðahættusvæði. Samkvæmt áhættumati þarf að færa skíðaskála og lyftu af neðsta hluta svæðisins og leggja nýjan veg.

<>

Vegurinn samþykktur á samgönguáætlun

Þessar framkvæmdir eru metnar á 200 milljónir króna og bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur lengi krafist þess að ríkið greiði kostnaðinn. Vegur um svæðið er ein þeirra framkvæmda á samgönguáætlun sem hlaut náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar, en 100 milljónum króna var úthlutað í verkið á þessu ári.

Ríkið verði að koma með eitthvað á móti

„Við erum náttúrulega búin að þrýsta á þetta í fleiri, fleiri ár,“ segir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Fjallabyggð. „Og gera mönnum grein fyrir hvað það er alvarlegt mál að koma bara hér og henda í okkur þeim bolta að við séum á undanþágu vegna þess að þetta sé á snjóflóðahættusvæði. Ríkið verður þá náttúrulega að koma með eitthvað á móti í þessu máli.“

Meira áríðandi en endurbætur á þjóðvegum?

Meðal framkvæmda sem skornar voru niður á samgönguáætlun eru endurbætur á þjóðvegum víða um land þar sem umferðaröryggi er talið ábótavant. Þar á meðal eru vegir eins og yfir Dynjandisheiði, á Skógarströnd, í Bárðardal, til Borgarfjarðar eystra og undirbúningur að Skagastrandarvegi. Því spyrja ýmsir hvort vegur að skíðasvæði Siglfirðinga sé meira áríðandi.

Spurning hvort svæðið verði opið eða ekki

„Þetta er spurning um það hvort við getum verið með svæðið okkar, skíðasvæðið, útivistarsvæðið, opið eða ekki,“ segir Gunnar. „Stjórnvöld hafa metið það þannig að þetta væri eitt af þeim forgangsverkefnum sem væri búið að bíða lengi.“

Heimild: Ruv.is