Home Fréttir Í fréttum Starfsmannaleigur blómstra: „Mjög óæskilegt“

Starfsmannaleigur blómstra: „Mjög óæskilegt“

130
0

Rúmlega 1.100 erlendir ríkisborgarar starfa hér á landi í gegnum 28 skráðar starfsmannaleigur og hefur þeim fjölgað ört að undanförnu. Ráðningasamningur Rúmena hér á landi fól í sér mörg alvarleg brot á lögum og kjarasamningum.

Starfsmannaleigur aftur fyrirferðarmiklar
Umræða um starfsmannaleigur var hávær á árunum fyrir hrun enda voru þær gagnrýndar fyrir að brjóta á rétti starfsmanna sinna. Árin eftir hrun fór lítið fyrir þess konar starfsemi, en það hefur breyst hratt að undanförnu.

Stóraukning á síðustu misserum
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunnar voru allt árið 2014 samtals skráðar 4 starfsmannaleigur hér á landi með 22 starfsmenn. Allt árið 2015 voru skráðar 9 starfsmannaleigur með 165 starfsmenn. Árið 2016 varð stór breyting því allt árið voru samtals 30 starfsmannaleigur hér á landi með 1.527 starfsmenn. Það stefnir í enn meiri fjölda í ár, því fyrstu þrjá mánuðina voru 28 starfsmannaleigur hér á landi með 1.104 starfsmenn.

Óæskilegt fyrirkomulag
Flestir sem koma hingað til lands í gegnum starfsmannaleigur koma frá ríkjum Austur-Evrópu. Þeir starfa aðallega í byggingariðnaði, á verkstæðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu. Starfsmannaleigurnar þurfa lögum samkvæmt að skrá sig hjá Vinnumálastofnun. Það er kallað eftir ráðningasamningum og launaseðlum til að fylgjast með að íslensk lög og réttindi séu virt. En það er víða pottur brotinn. Halldór Gronvöld, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir þetta fyrirkomulag „almennt mjög óæskilegt.“

Margvísleg brot í ráðningarsamningi
Ráðningarsamningur sem rúmenska starfsmannaleigan Royal Intel Ltd. gerði í ágúst 2015 við karlmann sem var að koma til vinnu hér á landi, sýnir að hann fékk 10 evrur í tímakaup, þurfti að vinna 50 klukkustundir á viku og yfirvinnukaup er sérstaklega tilgreint einnig 10 evrur. Ekki er tilgreint hjá hvaða fyrirtæki á Íslandi maðurinn myndi starfa eða við hvað. ASÍ taldi að ráðningasamningurinn fæli í sér mörg mjög alvarleg brot á lögum og kjarasamningum um launagreiðslur, vinnutíma og margt fleira.

Laun undir kjarasamningum
Starfsmannaleigur eru algengar í ríkjum Evrópu þar sem ráðningafesta er mjög mikil og réttindi fólks varðandi uppsagnir mjög rík.„Hér er ráðningafesta allt önnur og þar af leiðandi eiga starfsmannaleigur engar forsendur til að vera hér á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Halldór.
Aðspurður hvort ASÍ verði vart við brotastarfsemi hjá starfsmannaleigum, segir Halldór: „Það er allt of mikið um það og það er í fleiri tilfellum heldur en færri þar sem við teljum að þessar leigur séu að brjóta á starfsmönnum sínum.“
Halldór segir birtingarmyndirnar aðallega að laun séu langt undir kjarasamningum og fólk fái hvorki yfirvinnukaup né veikindalaun. Hann telur að starfsmannaleigur séu mun fleiri en þær sem skráðar eru.

Kostnaður gæti lent á fyrirtækjum
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp félagsmálaráðherra, sem felur í sér að fyrirtæki sem kaupa þjónustu af starfsmannaleigum, þurfa að bera ábyrgð á því að starfsfólkið njóti þeirra réttinda og kjara sem þeim ber. Annars getur kostnaðurinn lent á fyrirtækinu sjálfu.
„Við gerum okkur vonir um að það verði bæði til að draga úr spurninni eftir því að nýta sér þjónustu starfsmannaleiga og þegar það er gert þá vandi notendafyrirtæki sig því þau vita að þau geti lent í kostnaðinum sjálf,“ segir Halldór.

Heimild: Ruv.is

Previous articleOpnun útboðs: Krýsuvíkurvegur (42), hringtorg við Hellnahraun II
Next articleVerkamenn óskast