Home Fréttir Í fréttum Telja að nýtt hús undir Hafró skyggi á útsýnið

Telja að nýtt hús undir Hafró skyggi á útsýnið

219
0
Litaði hlutinn er húsnæði Hafrannsóknarstofnunar.
Eigendur fasteignar við Suðurgötu í Hafnarfirði telja að nýtt skrifstofuhúsnæði, sem á að rísa við Fornubúðir og meðal annars hýsa Hafrannsóknarstofnun, muni að miklu leyti skyggja á stórkostlegt útsýni þeirra yfir höfnina og yfir á Álftanes þar sem þeir sjá meðal annar Garðakirkju og nágrenni. Eigendurnir segja að þeir muni setja fram bótakröfu ef deiliskipulagstillagan verður samþykkt.

Eignarhaldsfélagið Fornubúðir 5 ætlar að byggja 5.500 og 6.000 fermetra skrifstofu-og þjónustubyggingu. Hafró mun síðan leigja húsnæði undir starfsemi sína en áætlaður byggingatími er 15 mánuðir. 

<>

Í athugasemd sem tekin var fyrir á fundi skipulags-og byggingaráðs í morgun segja íbúarnir að ekki verði séð að þörf sé fyrir tugþúsundir fermetra af skrifstofu-og verslunarhúsnæði á þessum stað enda sé ekki skortur á slíku húsnæði í bænum.

Sá tónn sem þarna sé sleginn varðandi byggingarmagn og hæð sé ekki í neinni sátt við nærliggjandi byggð „enda kæmi þessi bygging til með að skaða hagsmuni íbúa í nágrenninu, bæði með útsýnisskerðingu og ónæði af umferð.“

Íbúarnir benda á að hæð skemmu á lóðinni núna sé í dag um 12,7 metrar en ný bygging verði að lágmarki 22 metrar. „Þetta er auðvitað út fyrir allt meðalhóf og kemur til með að valda stórkostlegri útsýnisskerðingu hjá nágrönnum,“ skrifa íbúarnir og kalla þetta  „nýtt Norðurbakkaslys.“

Í svari skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðar við þessar athugasemd segir að samkvæmt deiliskipulagi sé enn talsvert af óbyggðum lóðum á þessu svæði. Því megi vænta þess að almennt muni umferð á umræddu svæði aukast töluvert á næstu árum.

Þá vill hann ekki draga úr þeim fullyrðingum að útsýnið yfir Hafnarfjarðarhöfn og Álftanes sé stórkostlegt. „En eitt einkenni byggðaþróunar og borgarmyndunar er meðal annars þétting byggðar og aukin nýting lands á grundvelli betri notkunar á samfélagslegum innviðum.“ Útsýni sé kostur en ekki óbreytanlegt skilyrði og ekki hafi verið sýnt fram á að hugsanleg útsýnisskerðing leiði til verðrýrnar í þessu tilviki.

Hann lagði að lokum til að deiliskipulagstillagan yrði samþykkt og ákvað skipulags-og byggingaráð að vísa henni til bæjarstjórnar.

Heimild: Ruv.is