Alls var 771 einkahlutafélag nýskráð á fyrsta ársfjórðungi en á sama tíma fóru 197 fyrirtæki í þrot. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.
Nýskráningar einkahlutafélaga á fyrsta ársfjórðungi 2017 voru 771, þar af 242 í janúar, 257 í febrúar og 272 í mars. Nýskráningum fjölgaði um 8% á fyrsta ársfjórðungi 2017, borið saman við fyrsta ársfjórðung 2016 þegar þær voru 712.
Ef litið er á fjölda nýskráninga eftir helstu bálkum atvinnugreina voru flestar nýskráningar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (142) og fasteignaviðskiptum (131). Sé borið saman við fyrsta ársfjórðung 2016 var hlutfallsleg fjölgun nýskráninga mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, þar sem þeim fjölgaði úr 77 í 142 (84%).
Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga var í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum, þar sem þeim fækkaði úr 26 í 10 (62%). Síðustu 12 mánuði, frá apríl 2016 til mars 2017, fjölgaði nýskráningum einkahlutafélaga um 11% í samanburði við 12 mánuði þar á undan, en alls voru 2.725 ný einkahlutafélög skráð á síðustu 12 mánuðum, borið saman við 2.465 á fyrri 12 mánuðum.
Á fyrsta ársfjórðungi 2017 voru 197 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta, þar af 71 í janúar, 67 í febrúar og 59 í mars. Gjaldþrotabeiðnum fyrirtækja á fyrsta ársfjórðungi 2017 fækkaði um 38% frá fyrsta ársfjórðungi 2016, en þá voru þær 320.
Ef litið er á helstu bálka atvinnugreina voru 51 gjaldþrot í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og fækkaði þeim frá fyrsta ársfjórðungi 2016 úr 61 (fækkun um 16%) og í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum voru 34 gjaldþrot og fækkaði þeim úr 77 frá fyrsta ársfjórðungi fyrra árs (fækkun um 56%).
Gjaldþrotabeiðnum fyrirtækja síðustu 12 mánuði, frá apríl 2016 til mars 2017, fjölgaði um 33% í samanburði við 12 mánuði þar á undan, en alls voru 907 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu, borið saman við 683 á fyrra tímabili.
Heimild: MBl.is