Home Fréttir Í fréttum Bregðast við hættulegu ástandi á íbúðamarkaði

Bregðast við hættulegu ástandi á íbúðamarkaði

112
0
Þorsteinn Víglundsson Mynd: Ruv.is
Ástandið á húsnæðismarkaði er mjög hættulegt og fólk ætti að fara varlega í að skuldsetja sig við slíkar aðstæður, segir Þorsteinn Víglundsson ráðherra húsnæðismála. Ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna nú saman að því að hraða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Vantar 9 þúsund íbúðir
Íbúðalánasjóður áætlar að það þurfi að byggja um níu þúsund íbúðir á næstu þremur árum til þess að mæta eftirspurn. Fasteignaverð hefur hækkað ört síðustu misseri og mikil umræða hefur verið um hvort ungu fólki sé yfir höfuð stætt á að komast inn á fasteignamarkaðinn.  Í auglýsingaherferð hvetur Íslandsbanki fólk til að gefast ekki upp. Það sé hægt að spara fyrir útborgun í íbúð. Hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði sagði í hádegisfréttum í dag að fólk ætti að fara varlega í íbúðakaup við þessar aðstæður á markaði.

<>

„Mjög hættulegt ástand“
Þorsteinn Víglundsson er ráðherra húsnæðismála.  „Það er auðvitað mjög hættulegt ástand þegar við erum með svona kröftugan efnahagsvöxt. Fasteignaverð hefur verið að hækka mjög mikið og við þessar kringumstæður getur skapast mjög varasamt bóluástand þannig að það er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þessari stöðu því að þetta ástand er mjög varasamt.“
– Er þetta tíminn fyrir ungt fólk til að reyna að kaupa sína fyrstu íbúð?

„Það er alveg ljóst að við þessar kringumstæður er það mjög erfitt og það er gríðarlega mikilvægt að ríkið og sveitarfélög taki hér höndum saman um að auka framboð sem kostur er því þetta ástand er mjög varasamt.“

– Er það hreinlega gerlegt fyrir fólk að fara inn á markaðinn við þessar aðstæður?
„Við kringumstæður sem þessar þegar við erum að sjá fasteignaverð vera að rísa svona skart þá þarf fólk að huga mjög að því að skuldsetja sig um of, stíga varlega til jarðar,“ segir Þorsteinn.

Ríki og sveitarfélögin vinna saman að lausn
Aðgerðahópur á vegum ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú saman að því finna leiðir til að hraða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, meðal annars með auknu lóðaframboði, endurskoðun á byggingareglugerð og verðlagningu sveitarfélaga á lóðum.
Ennfremur hvernig styðja megi fekar við ungt og tekjuminna fólk til kaupa á fyrstu íbúð.

Ríkið útvegar byggingaland á höfuðborgarsvæðinu
Ríkið á land víða innan marka höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt væri að byggja. „Þær lóðir sem eru hér innan borgarmarkanna í eigu ríkisins; að huga að því að leggja þær undir skipulag. Það er til dæmis landsvæði eins og Keldnaholtið sem er mjög vel fallið til uppbyggingar til þéttingar byggðar en samt verkefni sem gæti gengið tiltölulega hratt fyrir sig og reyndar fleiri reitir. Það er nýbúið að ganga frá samkomulagi við Garðabæ um sölu á stóru landi til uppbyggingar. Því til viðbótar mætti nefna Veðurstofureit, Landhelgisgæslureit ogt fleiri slíka,“ segir Þorsteinn Víglundsson.

Heimild: Ruv.is