Home Fréttir Í fréttum Fyrsta skóflustunga að nýjum íbúðakjarna við Hafnarbraut 9–15 í Kópavogi

Fyrsta skóflustunga að nýjum íbúðakjarna við Hafnarbraut 9–15 í Kópavogi

375
0
Hafnarbraut 13-15.

Fyrsta skóflustunga að nýjum íbúðakjarna við Hafnarbraut 9–15 á Kársnesi í Kópavogi var tekin síðastlið­inn föstudag. Þar munu rísa hús með 78 nýjum íbúðum, auk þess sem gerðar verða upp 39 íbúðir sem þar eru fyrir.

<>
Mynd: Vb.is /Sigurjón Ragnar
Mynd: Vb.is /Sigurjón Ragnar

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, og Theodóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs og skipulagsráðs Kópavogs, tóku fyrstu skóflustunguna. Kársnesbyggð ehf. er framkvæmdaraðili verkefnisins en byggingaraðili er Íslenskar fasteignir ehf.

Eigendur Kársnesbyggðar ehf. eru Kvika banki og Kársnes fasteignir ehf., sem er félag í eigu Íslenskrar fjárfestingar ehf. Verkið er fullfjármagnað en búast má við að kostnaður verði tæpir fjórir milljarðar króna. Lögð var áhersla á vel skipulagðar og þar með hagkvæmar íbúðir til að sporna gegn háu húsnæðisverði.

Samkvæmt fréttatilkynningu segir Ármann að Kópavogsbær hafi á undanförnum misserum lagt mikla áherslu á skipulagningu uppbyggingar á vestanverðu Kársnesinu, en samkvæmt núgildandi aðalskipulagi mun iðnaður að stórum hluta víkja fyrir nýjum íbúðum, verslun og þjónustuhúsnæði á næstu fjórum til fimm árum.

Hafnarbraut 1-9
Hafnarbraut 1-9

„Þá er einnig horft til þess að borgarlínan fari yfir Fossvoginn um nýja brú sem nú er í skipulagsferli. Brúin, sem verður fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur, mun hafa mikil áhrif á ferðavenjur Kársnesbúa. Hér er verið að taka fyrstu skrefin í uppbyggingu sem mun breyta ásýnd þessa hluta Kársnessins og því spennandi tímar framundan,“ segir Ármann.

Að sögn Theódóru hefur mikið verið lagt upp úr því að vinna með heildarmyndina á Kársnesinu og var þátttakan í Nordic Built samkeppninni mikill innblástur hvað það varðar. Lögð hefur verið mikil áhersla á samráð við íbúa Kársness í skipulagsferlinu og hafa sjónarmið íbúa haft mikil áhrif á skipulag svæðisins. Þá mun öll umgjörð hafnarinnar breytast mikið og mun það án efa ýta undir ferðaþjónustutengda starfsemi á svæðinu.

Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri Íslenskra fasteigna ehf., segir uppbygginguna sem framundan er á Kársnesinu spennandi og að gaman verði að taka þátt í henni. „Við reiknum með því að byggja upp 200–300 íbúðir á næstu þremur til fjórum  árum á þessum hluta Kársnessins og á þeim tíma mun allt svæðið gjörbreytast. Þetta er fyrsti áfanginn og okkur finnst mikilvægt að þessi uppbygging gangi vel, enda búið að leggja mikla vinnu í að endurskipuleggja stóran hluta af þessum parti af Kársnesinu. Verkáætlun gerir ráð fyrir að íbúðirnar verði tilbúnar í byrjun árs 2019,“ segir Sveinn.

Heimild: Vb.is