Framkvæmdir eru hafnar í Grindavík við byggingu 24 íbúða fjölbýlishúss við Stamphólsveg og hefur verið gengið frá því að Bláa lónið kaupi þær allar.
Ætlunin með þessu er að tryggja starfsmönnum húsnæði, en íbúðirnar verða 70-90 fermetrar að flatarmáli. „Jarðvinnan er hafin og við byrjum að slá upp fyrir sökklum í byrjun maí,“ segir Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri trésmiðjunnar Grindarinnar, sem stendur að framkvæmd.
Sem kunnugt er ætlar IKEA að reisa í Urriðaholti í Garðabæ 36 íbúða fjölbýlishús fyrir sína starfsmenn. Hefur framkvæmdastjóri IKEA sagt að þetta sé forsenda þess að fyrirtækin fái gott fólk til starfa. Kaup Bláa lónsins á blokkinni eru af sama toga og ráðstafanir IKEA.
Í Grindavík er nokkuð um að fyrirtæki útvegi starfsfólki húsnæði og í því skyni hefur meðal annars verbúð verið breytt í litlar íbúðir þar sem starfsfólk í sjávarútvegi býr.
Heimild: Mbl.is