Home Fréttir Í fréttum Nýtt hverfi rís á Húsavík fyrir starfsfólk PCC

Nýtt hverfi rís á Húsavík fyrir starfsfólk PCC

188
0
Mynd: Norðurþing
Verið er að byggja upp nýtt hverfi á Húsavík til að hýsa starfsmenn kísilverksmiðjunnar á Bakka. Sveitarstjóri segir þetta hafa jákvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn, enda langt síðan svo miklar húsnæðisframkvæmdir hafi verið í bænum.

22 nýjar íbúðir

Framkvæmdirnar eru í tveimur áföngum og er sá fyrri kominn nokkuð á veg. Íbúðirnar eiga að komast í gagnið í lok nóvember. Bergur Elías Ágústsson, fulltrúi leigufélags PCC, segir að um sé að ræða 11 parhús, samtals 22 íbúðir.

<>

„Og það er byrjað á gatnagerð og undirbúningi og við stefnum að því að það verði byrjað að reisa þar í apríl,” segir hann.

Starfsfólk byrjað að sækja um

Tuttugu íbúðir til viðbótar gætu risið á svæðinu, en það er ófrágengið. Búið er að stofna leigufélag í kringum fyrsta áfanga, sem eru íbúðir fyrst og fremst hugsaðar fyrir starfsmenn PCC á Bakka og fólk er þegar byrjað að sækja um.

„Það hefur forgang, að sjálfsögðu, en svo verðum við bara að sjá hvað gerist þegar tíminn líður,” segir Bergur.

Ráðningarferli vegna kísilverksmiðju PCC á Bakka er hafið og þegar starfsemin verður komin á fullt á næsta ári munu 111 manns vinna þar fulla vinnu, en alls um 200 í afleiddum störfum.

Hefur verið erfitt að byggja

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri í Norðurþingi, segir framkvæmdirnar ánægjulegt skref.

„Það hefur verið erfitt að byggja hérna, fasteignaverð hefur almennt verið tiltölulega lágt, eins og er víðast hvar á landsbyggðinni, miðað við hvað kostar að byggja,” segir hann. „Þannig að þetta mun hafa jákvæð áhrif á markaðinn.”

Hraun undir bænum

Fasteignaverð á Húsavík hefur hækkað um 30 prósent á síðasta ári og er framboð eftir húsnæði minna en eftirspurn.

„Það er langt síðan að við byggðum upp heilt hverfi, og það er nú gaman að segja frá því að þetta er í fyrsta skipti innan ramma bæjarins sem við komum niður á hraun, menn vissu ekki að það leyndist þarna undir,” segir Kristján.

Heimild: Ruv.is