Home Fréttir Í fréttum Verktaki gat ekki sannað launagreiðslur með reiðufé

Verktaki gat ekki sannað launagreiðslur með reiðufé

278
0
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær verktaka til að greiða þremur mönnum laun sem þeir fullyrtu að þeir ættu inni hjá honum. Verktakinn hélt því fram að hann hefði borgað mönnunum þremur allt sem þeim bar með reiðufé og jafnvel gott betur. Sönnunarbyrðin var hins vegar á honum, og fyrst hann gat ekki sýnt fram á greiðslurnar með óyggjandi hætti tapaði hann málinu.

Mennirnir, sem allir eru pólskir að uppruna, unnu við málningarvinnu og múrverk hjá verktakanum sumarið 2015 og fram á haust. Stéttarfélagið Efling ritaði verktakanum bréf 1. október það ár, þar sem því var haldið fram að mennirnir hefðu ekki fengið greidd nein laun fyrir verkið.

<>

Þessu mótmælti verktakinn og sagðist hafa greitt þeim öllum í reiðufé. Hvorki hann né mennirnir gáfu sig og málið endaði að lokum fyrir dómi.

Fyrir dóminn kom fyrrverandi kona verktakans og vitnaði um að mennirnir hefðu sannarlega fengið allt sitt greitt í reiðufé. Eftirlitsmaður með verkinu bar einnig vitni og sagðist einu sinni hafa séð mennina taka við peningagreiðslum í kaffiaðstöðu á staðnum þegar hann kom til að fylgjast með verkinu.

Dómari kemst engu að síður að þeirri niðurstöðu að verktakanum hafi ekki tekist að sanna að hann hafi greitt mönnunum launin og úr því að hann geti það ekki verði að dæma málið þeim í hag.

Honum er því gert að greiða einum mannanna 620.000 krónur, öðrum 480.000 krónur og þeim þriðja tæpar 440.000 krónur.

Heimild: Ruv.is