Við undirbúning framkvæmdanna var ein skýrsla gerð sem fjallaði um rannsóknarboranir í Vaðlaheiði og tók saman niðurstöður jarðfræði rannsókna. Höfundur skýrslunnar er jarðfræðingurinn Ágúst Guðmundsson, sem segir að áfram megi búast við því að vatnsæðar opnist við gangagröftinn en hann segir það ólíklegt að streymið úr þeim verð álíka því sem nú er í austurenda ganganna.
„Ég held að þeir megi óttast það að þeir fái fleiri innflæði, ég skal ekki segja af þessari stærð. Mér finnst frekar ólíklegt að þeir fái þessa stærð en alveg hálfdrætting við þetta eða eitthvað slíkt. Það finnst mér alls ekki ólíklegt að geti komið upp aftur og hugsanlega þessi stærð. En eins og með heita vatnið, mér datt ekki í hug að menn myndu lenda á svona miklu heitu vatni og oft kemur svona manni svolítið óþægilega á óvart, það sem kemur upp á,“ segir Ágúst og vísar þar til þess þegar heitt vatn fór að streyma inn í göngin snemma árs 2014.
Stafn ganganna á kafi
Heita vatnið gerði það óbærilegt fyrir vinnumenn að vera þar inni í lengri tíma og loftræstikerfi hafa ekki haft undan. Því var ákveðið að stöðva vinnu þar og hefjast handa í Fnjóskadal. Þá var lengd ganganna vestanmegin, þ.e. Akureyrarmegin, orðin 2.695 metra og lengdin í Fnjóskadal er nú 1.475 metrar. Framkvæmdir hafa nú stöðvast líka í Fnjóskadalsmegin vegna vatnsflaumsins en vatnið sem streymir inn í göngin er svo mikið að dælur hafa ekki undan. Vatnið flæðir því upp að hæsta punkti ganganna, sem er í um kílómetra fjarlægð og stendur tíu metrum ofar. Hæðin frá gólfi og upp í loft er sjö metrar, sem þýðir að stafn ganganna er á kafi. Stafn ganganna er í raun botn ganganna, ekki er hægt að fara lengra inn í göng sem verið er að grafa nema að stafninum.
Slíkt hefur aldrei gerst áður í gangagerð á Íslandi, að vatnið safnist saman í stafni og að ekki sé hægt að dæla því út. Gert er ráð fyrir því við framkvæmdirnar að dæla þurfi vatni út og nokkuð öflugt dælukerfi er í göngunum. Það hefur þó ekki haft undan og ákvað verktakinn á laugardag að flytja öll tæki út úr göngunum til að koma í veg fyrir tjón.
Bjóst við vatni en ekki heitu
Í skýrslunni sem Ágúst samdi segir að verktakinn megi gera ráð fyrir því að þurfa að glíma við talsvert vatn í fjallinu. Sú skýrsla byggir meðal annars á borholum sem gerðar voru árið 2010.
„Ein hola var boruð á austanverðri heiðinni, skammt frá holu sem við höfðum borað þar áður og verið í erfiðleikum með setlögin í. Hin var boruð að vestanverðu og í tengslum við þessa borun fundum við að það var mikill jarðhitastigull þarna inni í heiðinni og maður mat það svo að við myndum fá hita, en manni datt aldrei í hug að það yrði í sama vatnsmagni og varð,“ segir Ágúst en þegar mest var streymdu 350 lítrar á sekúndu inn í göngin.
„Hins vegar hafði ég gert ráð fyrir að við fengjum talsvert vatnsmikil innflæði, sem byggði á dæluprófunum í vestanverðri heiðinni. Það styrkti þann grun að við værum að fá inn stór innflæði í þessu verkefni eins og svo varð en þá bjóst ég við að það yrði kalt vatn, en ekki heitt. Stundum æxlast hlutirnir svolítið öðruvísi,“ segir Ágúst. Segja má því að spá hans hafi bæði verið rétt og röng, því auk heita vatnsins sá hann ekki fyrir að innflæðið yrði jafn mikið í einu eins og raunin er nú.
1153 metrar af 1475 undir vatni
Einar Hrafn Hjálmarsson, staðarstjóri Vaðlaheiðarganga, sagði í viðtali við fréttastofu á sunnudag að ekki væri hægt að sjá slíkar vatnsæðar fyrir. Sagan hjálpar þar ekki til, því samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru aðeins tvö þekkt atvik þar sem svipaðar vatnsæðar opnuðust. Sú fyrri var í Vestfjarðagöngum árið 1993 og sú æð skilaði 3000 lítrum á sekúndu. Svo mikið er vatnið að það er bæði nýtt í vatnsveitu Ísafjarðarbæjar og einnig hefur afrennslisvatnið verið virkjað. Í Héðinsfjarðargöngum opnaðist æð sem skilar um 400 lítrum á sekúndu, svipað og í Vaðlaheiði. Þáverandi bæjarstjóri Fjallabyggðar lét hafa eftir sér árið 2008 að vatnsstraumurinn inn í göngin gæti séð öllu Eyjafjarðarsvæðinu fyrir vatni.
Óvíst er hversu miklar tafir verða á framkvæmdum nú en stutt er í að nýtt og öflugra loftræstikerfi verði sett upp Akureyrarmegin, vestanmegin. Vonast er til þess að með því verði loftið betra í göngunum svo hægt sé að vinna þar en á meðan er óvíst hvað verður gert Fnjóskadalsmegin. Vonir standa til þess að streymið inn í göngin minnki með tímanum, þannig að hægt verði að dæla vatninu út. Sem stendur eru 1153 metrar af 1475 undir vatni, og þar af eru 620 metrar algjörlega á kafi.
Heimild: Rúv.is