Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hefjast við ný mislæg gatnamót í Hafnarfirði

Framkvæmdir hefjast við ný mislæg gatnamót í Hafnarfirði

220
0

Fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar, Vegagerðarinnar og verktaka að baki byggingar á nýjum mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar hittust í dag til að taka formlega fyrstu skóflustunguna að framkvæmdnum. Framkvæmdir hefjast strax enda á verkið að vinnast á skömmum tíma og vera lokið 1. nóvember næstkomandi.

<>

Í vikunni skrifuðu fulltrúar Loftorku, Suðurverks og Vegagerðarinnar undir verksamning um gerð mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar og veitufyrirtækja.  Verktakar hafa þegar komið upp vinnubúðum á svæðinu og eru þessa dagana að undirbúa framkvæmdina. Byrjað verður á því að færa lagnir af ýmsu tagi og leggja framhjáhlaup áður en hafist verður handa við byggingu brúarinnar sjálfrar.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá framkvæmdir fara af stað og mikið gleðiefni hversu hratt framkvæmdin á að vinnast“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar. „Við bindum miklar vonir við það að verkið standist tímamörk og að í upphafi nóvember þá verði gatnamótin komin í fulla virkni. Þessi framkvæmd hefur mikil og jákvæð áhrif fyrir mannlífið og atvinnulífið á þessu svæði og er framkvæmdin og verkhraðinn vonandi fyrirmynd fyrir það sem koma skal í vegaframkvæmdum í Hafnarfirði. Umferð um svæðið hefur margfaldast og mikil þörf á frekari framkvæmdum við a.m.k. tvenn hringtorg, tvöföldun og fleiri tengingar í Hafnarfirði“ segir Haraldur.

VSÓ ráðgjöf ehf. sinnir eftirliti en þeir áttu lægst boð í það verk upp á 19,4 milljónir króna. Áætlaður verktakakostnaður var 21 milljón króna.

Sjálft verkið kostar mun meira, en Loftorka ehf. og Suðurverk ehf. áttu saman lægst boð upp á 918 milljónir króna en áætlaður verktakakostnaður var um 817 milljónir króna.

Við bætist síðan ýmis kostnaður við undirbúning og hönnun verksins. Í verkinu felst gerð mislægra vegamóta á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar auk allra vega og stígagerðar sem nauðsynleg er til að ljúka gerð vegaframkvæmdanna endanlega.

Til framkvæmdanna telst einnig breytingar á Krýsuvíkurvegi, gerð tengivegar að Suðurbraut og tengivegar að Selhellu. Einnig er innifalin gerð göngu- og hjólastígs meðfram Suðurbrautartengingu og hraðatakmarkandi aðgerðir á Suðurbraut. Þá er gerð hljóðmana við Reykjanesbraut og í Hellnahverfi í Hafnarfirði hluti verksins. Einnig eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sem og nýlagnir og landmótun auk annarra þátta sem nauðsynlegir eru til að ljúka verkinu.

Heimild: Hafnarfjörður.is