Home Fréttir Í fréttum Reykjavík úthlutar færri lóðum en Kópavogur

Reykjavík úthlutar færri lóðum en Kópavogur

87
0
Mynd: RÚV

Kópavogur, Hafnarfjörður og Reykjanesbær hafa hvert um sig úthlutað fleiri lóðum til byggingar íbúðarhúsnæðis en Reykjavík. Hins vegar er töluvert meira í byggingu í Reykjavík en í hinum sveitarfélögunum.
Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum frá nokkrum sveitarfélögum um hversu mörgum lóðum hefði verið úthlutað til íbúðabygginga hjá sveitarfélögunum frá síðustu kosningum vorið 2014.

<>

Stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, hefur úthlutað lóðum undir 317 íbúðir á þeim tíma. En tvö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa úthlutað lóðum fyrir fleiri íbúðir. Í Kópavogi eru þær 348 og í Hafnarfirði 329. Garðabær úthlutaði lóðum fyrir 42 íbúðir, Mosfellsbær fyrir 200 íbúðir og Seltjarnarnes fyrir 34 íbúðir. Reykjanesbær slær hins vegar öllum þessum sveitarfélögum við – úthlutaði lóðum fyrir 359 íbúðir.

Meira í byggingu í Reykjavík
Samtök iðnaðarins birtu hins vegar í dag tölur um hversu margar íbúðir voru í byggingu í febrúar síðastliðnum. Þær tölur segja aðra sögu.

Í Reykjavík eru þær 1228 sem er með því mesta sem hefur mælst og það sama má segja um Kópavog með 655 íbúðir í byggingu. Í Hafnarfirði eru 237 íbúðir í byggingu og hefur þeim fækkað undanfarið ár. Í Garðabær voru 644 íbúðir í byggingu sem er það langmesta sem mælst hefur þar og sama má segja um Mosfellsbæ – þar eru 470 íbúðir í byggingu. Á Seltjarnarnesi eru þær svo 23. Samtökin telja aðeins á höfuðborgarsvæðinu og því eru þessar tölur ekki til fyrir Reykjanesbæ.

Heimild: Ruv.is