Home Fréttir Í fréttum RÚV seldi byggingarrétt og hagnaðist um 1,4 milljarða

RÚV seldi byggingarrétt og hagnaðist um 1,4 milljarða

105
0
Mynd: Arkþing

RÚV hagnaðist um 1.429 milljónir króna eftir skatta í fyrra en afkoman skýrist að mestu af einskiptishagnaði vegna sölu á byggingarrétti á lóð við Efstaleiti 1 sem nam 1.535 milljónum króna. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 95 milljónum fyrir skatta.

<>

„Félagið mun ekki greiða skatta af hagnaðinum vegna uppsafnaðs taps frá fyrri tíð. Markmiðið með sölu byggingarréttarins er að greiða niður skuldir félagsins. Í lok ársins 2015 var eiginfjárhlutfall RÚV 6,2 prósent en er nú 23,8 prósent eftir sölu byggingarréttarins,“ segir í tilkynningu RÚV til Kauphallar Íslands.

Þar segir einnig að breytingar í rekstri hafi skilað umtalsverðri hagræðingu. Tekist hafi að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur sé.

„Jafnvægi sem náðist í rekstri félagsins á árinu 2015, helst á árinu 2016 og útlit er fyrir að svo verði í náinni framtíð. Nýr þjónustusamningur RÚV og mennta- og menningarmálaráðuneytisins var undirritaður á árinu og gildir hann til ársloka 2019. Stöðugildi voru að meðaltali 258 á árinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 259 árið 2015, 297 árið 2013 og 324 árið 2008.“

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, segir ljóst að búið sé að koma jafnvægi á rekstur ríkisfjölmiðilsins.

„Sala á byggingarrétti skilar RÚV umtalsverðum söluhagnaði sem leiðir til mikillar skuldalækkunar og mikilla bóta á eigin fé félagsins. Nýr þjónustusamningur sem undirritaður var á síðasta ári tryggir loks fyrirsjáanleika og öryggi í tekjum félagsins til næstu ára. Á hinn bóginn er félagið enn of skuldsett vegna lífeyrissjóðsskuldbindinga frá gamalli tíð og er það mikill baggi á starfseminni í dag en á þeirri yfirskuldsetningu þarf að taka,“ segir Magnús.

Í tilkynningu RÚV er einnig tekið fram að þrátt fyrir sölu á bygginaréttinum á lóðinni við Útvarpshúsið sé félagið áfram mjög skuldsett.

„Hefur stjórn RÚV vakið athygli eigandans, ríkisins, á því að félagið hafi á komandi árum ekki burði til þess að standa undir hinni miklu skuldsetningu án aðgerða en félagið hefur m.a. átt í viðræðum við LSR um möguleika á skilmálabreytingu láns sem er tilkomið vegna gamalla lífeyrissjóðsskuldbindinga. Útreikningur á söluhagnaði byggist á núverandi deiliskipulagi og áætlun kaupanda um nýtingu byggingarréttarins en lokauppgjör vegna sölunnar fer fram þegar endanlegt byggingamagn liggur fyrir.“

Heimild: Visir.is