Home Fréttir Í fréttum Verktakar undir smásjá skattrannsóknarstjóra

Verktakar undir smásjá skattrannsóknarstjóra

407
0
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, segir margt benda til þess að tilraunir verktaka til að komast hjá lögbundnum skattgreiðslum til hins opinbera séu nú gerðar með skýrari ásetningi en áður hefur sést. Og á tíðum sé um verulegar undandregnar fjárhæðir að ræða.

Þetta kemur fram í umsögn Bryndísar við þingsályktunartillögu Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur þar sem lagt er til að stofnaður verði starfshópur um svokallaða keðjuábyrgð. Hún felur í sér að verksali eða aðalverktaki beri ábyrgð á því að undirverktakar standi í skilum og greiði rétt laun.

<>

Bryndís segir í umsögninni að reynsla skattrannsóknarstjóra sýni að verktakar hafi í vaxandi mæli gert ráðstafanir til að komast hjá lögbundnum skattgreiðslum til hins opinbera með því að leitast við að koma ábyrgð á greiðslum skatta yfir á undirverktaka sína.

Hún segir að oft sé þetta keðja undirverktaka þar sem ábyrgð á skattgreiðslum sé færð niður með keðjunni með þeim afleiðingum að skil á skattgreiðslum verði í reynd engar eða takmarkaðar.

Á tíðum tengist þessi háttsemi annars konar brotum – meðal annars greiðslu svartra launa og útgáfu tilhæfulausra reikninga. „Virðist margt benda til að þetta sé nú gert með skýrari ásetningi en áður hefur sést. Á tíðum er um verulega háar undandregnar fjárhæðir að ræða.“ Hún telur því þörf á að taka til athugunar hvort ástæða sé til að taka upp reglur um keðjuábyrgð til að sporna gegn skattsvikum.

Ríkisskattstjóri segir í umsögn sinni að hann muni ekki skorast undan ábyrgð og lýsir sig reiðubúinn að taka þátt í starfshópnum.

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins eru aftur á móti andvíg tillögunni og telja að hún gangi lengra en sú sátt sem nú sé unnið að með aðkomu aðila vinnumarkaðarins. Í sameiginlegri umsögn segja þau engin haldbær rök fyrir íþyngjandi ábyrgð verkkaupa á launum starfsmanna íslenskra verktaka – verði vanefnd á launum starfsmanna íslenskra fyrirtækja geti þeir beint kröfum að Ábyrgðarsjóði launa auk þess sem þeir séu félagsmenn í stéttarfélögum sem geti aðstoðað þá við innheimtu vangoldinna launa.

Starfsgreinasambandið leggur aftur á móti til að málið fái jákvæða meðferð á þingi. Á síðustu árum hafi sjónum verið í auknum mæli beint að félagslegum undirboðum og jafnvel mansali á vinnumarkaði og þar hafi stéttarfélög sérstaklega áhyggjur af ferðaþjónustunni og byggingarframkvæmdum.

Heimild: Ruv.is